Körfubolti

Pavel: Eiginlega ekki fyndið lengur

Ísak Hallmundarson skrifar
Pavel Ermolinskij fór í Val fyrir tímabilið
Pavel Ermolinskij fór í Val fyrir tímabilið vísir/bára
Valur tapaði óvænt fyrir Þór Akureyri í Dominos-deild karla í körfubolta fyrr í kvöld. Fyrir leikinn var Þór á botni deildarinnar og hafði ekki unnið leik, á meðan lið Vals hafði tapað fjórum leikjum í röð eftir annars ágæta byrjun á tímabilinu.

Pavel Ermolinskij var til viðtals eftir leik og var allt annað en sáttur.

Valsliðið hefur átt það til í undanförnum leikjum að byrja leikina illa og í kvöld var engin breyting þar á. Liðið var 19 stigum undir í hálfleik.

,,Þetta virðist vera dálítið sagan hjá okkur í vetur. Ég kann hreinlega ekki útskýringar á því. Þá væri væntanlega búið að laga þetta. Þetta er alveg ótrúlegt og eiginlega ekki fyndið lengur. Það skiptir ekki máli hvort það sé besta liðið í deildinni eða eins og núna (í kvöld) neðsta liðið, við lendum tuttugu stigum undir, svo þarftu að krafsa þig til baka og stundum gengur það upp og stundum ekki. Það dregur líka svo mikinn kraft úr manni að lenda svona undir.‘‘

Er hægt að tala um krísu hjá Valsliðinu?

,,Krísa er stórt orð. Þetta er krísa miðað við það sem við ætluðum okkur, að sjálfsögðu. Það kemur samt ekkert gott út úr því að panikka alltof mikið, það endar aldrei vel heldur. Það þarf bara að halda áfram, stundum er þetta kannski ekki flóknari en bara einn leikur, bara ná einum góð leik og fá smá meðvind og geta kannski aðeins byrjað að taka einhver skref áfram og byggja eitthvað upp. Ég held að við þurfum bara þann leik, vonandi verður það bara næsti leikur‘‘ segir Pavel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×