Handbolti

Langt síðan breiddin var jafn mikil

Hjörvar Ólafsson skrifar
Aron Pálmarsson er lykilleikmaður í uppbyggingu íslenska karlalandsliðsins í handbolta sem stefnir að því að komast í hóp bestu þjóða heims á nýjan leik innan tíðar.
Aron Pálmarsson er lykilleikmaður í uppbyggingu íslenska karlalandsliðsins í handbolta sem stefnir að því að komast í hóp bestu þjóða heims á nýjan leik innan tíðar. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, gæti fengið töluverðan höfuðverk þegar kemur að því að velja leikmannahópinn fyrir Evrópumótið sem fram fer í janúar á næsta ári. Hópurinn sem kemur til greina í liðið hefur stækkað jafnt og þétt síðustu mánuðina og Guðmundur þarf að skilja sterka leikmenn eftir heima.

Fréttablaðið fékk Óskar Bjarna Óskarsson, aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla og yfirþjálfara yngri flokka hjá Val, til þess að fara yfir stöðuna hjá landsliðinu og rýna í valið sem fram undan er. Óskar Bjarni segir útlitið gott í aðdraganda mótsins en öflugir leikmenn séu hins vegar að glíma við meiðsli og erfitt að meta hvort þeir verða með.

„Það er langt síðan við höfum haft jafn mikla breidd í landsliðinu og við búum yfir þessa stundina. Þau kynslóðaskipti, sem nauðsynlegt var að fara í í kjölfar þess að liðið sem náði góðum árangri á Ólympíuleikunum árið 2008 og Evrópumótinu 2010 var farið að eldast, eru að ganga í gegn þessa stundina. Við náðum að brúa bilið vel að mínu mati og erum núna með í höndunum leikmannahóp sem er með marga leikmenn í hæsta gæðaflokki og á breiðu aldursbili. Ég held að markviss vinna hjá yngri landsliðunum sem og mikil rækt við ­B-landsliðið undanfarin ár eigi stóran þátt í því,“ segir Óskar Bjarni um landslagið.

„Þá erum við vel settir hvað það varðar að við erum með leikmenn á besta aldri í öllum stöðum og önnur kynslóðaskipti eins og við höfum verið að ganga í gegnum ekki í sjónmáli. Þess í stað getum við farið að horfa til þess að koma okkur aftur í hóp átta bestu liða heims innan fárra ára. Það er erfitt að setja einhvern tímapunkt á það hvenær það gerist en ég myndi segja að eftir svona tvö ár verðum við komnir á þann stall á nýjan leik. Aron Pálmarsson er svo líklega að spila sinn besta handbolta á ferlinum. Það er gaman að sjá hann vaxa í hlutverki reynslumikils leikmanns í liðinu sem miðlar til yngri leikmanna og nær einkar vel til þeirra inni á vellinum,“ segir hann enn fremur.

Vantar öfluga og hávaxna skyttu

„Við erum með ungan markmann, Viktor Gísla [Hallgrímsson], sem hefur öðlast alþjóðlega reynslu með GOG og hefur grætt mikið á að vera að spila í Meistaradeild Evrópu. Sigvaldi Björn [Guðjónsson] hefur vaxið mikið með Elverum og er að taka stökkið með Hauki Þrastarsyni og fara til Kielce. Það verður gaman að sjá þróun mála hjá þeim en þeir eru í góðum höndum hjá Talant Dujshebaev sem er einn fremsti þjálfari heims.

Janus Daði [Smárason] er að spila frábærlega með Álaborg og bankar hressilega á dyrnar í miðjusveit liðsins, sérstaklega í ljósi meiðsla Gísla Þorgeirs [Kristjánssonar]. Bjarki Már [Elísson] hefur verið að spila vel með Lemgo og Arnór Þór [Gunnarsson] heldur uppteknum hætti með Bergischer,“ segir þessi reynslubolti.

„Þó svo að við eigum marga leikmenn í hæsta gæðaflokki þá er kannski mesta syndin hversu margir þeirra eru miðjumenn. Það væri óskandi að þessir hæfileikar hefðu dreifst betur yfir útilínuna. Það er áhyggjuefni að Ómar Ingi [Magnússon] hefur ekki náð að jafna sig af höfuðmeiðslunum sem hafa verið að plaga hann. Viggó [Kristjánsson] sló reyndar aðeins á þær áhyggjur með góðri frammistöðu í leikjunum gegn Svíum um daginn. Svo finnst mér vanta svolítið hávaxna skyttu með mikla skotógn en Kristján Örn [Kristjánsson] gæti alveg orðið sá leikmaður hjá okkur,“ segir Óskar.

„Við erum með þrjá öfluga varnarmenn, þá Ólaf Gústafsson, Arnar Frey [Arnarsson] og Daníel Þór [Ingason] sem eru að glíma við meiðsli. Í ljósi þess var gott að sjá hversu miklum framförum Sveinn [Jóhannesson] hefur tekið á tíma sínum hjá Sönderjyske. Hann myndaði gott teymi með Ými Erni [Gíslasyni] í þristunum og þeir lofuðu góðu í leikjunum við Svía. Hvað línustöðuna varðar þá stóð Kári Kristján [Kristjánsson] sig vel gegn Svíþjóð. Hann minnti hressilega á sig þar og getur verið gott vopn sóknarlega í vissum leikjum á Evrópumótinu,“ segir hann.

„Við erum með öflug yngri landslið sem stóðu sig vel á þeim mótum sem þau spiluðu á í sumar. Við náðum meira að segja að breikka hópinn í 20 ára landsliðinu sökum fjarveru lykilleikmanna þar og 2000 og 2002 árgangarnir stóðu sig vel. Mér finnst við þurfa að bæta við verkefnum hjá U-15 ára hópnum okkar og sjá til þess að ­B-landsliðið fari að minnsta kosti á eitt mót á hverju ári,“ segir hann um framtíðina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×