Viðskipti innlent

Play semur við ungt þjónustufyrirtæki

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
María Margrét Jóhannsdóttir, samskiptafulltrúi Play, og Arnar Már Magnússon, forstjóri flugfélagsins, á blaðamannafundinum á þriðjudag.
María Margrét Jóhannsdóttir, samskiptafulltrúi Play, og Arnar Már Magnússon, forstjóri flugfélagsins, á blaðamannafundinum á þriðjudag. vísir/vilhelm
Flugfélagið Play, sem áformar að hefja flugrekstur í vetur, verður í viðskiptum við Íslenska flug­afgreiðslufélagið ehf. um flugþjónustu á Keflavíkurvelli, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Íslenska flugafgreiðslufélagið hóf nýlega starfsemi á Reykjavíkurflugvelli undir merkinu Reykjavík FBO. Það var stofnað árið 2017 en á síðasta ári námu tekjur félagsins um 10 milljónum króna. Félagið er einnig með heitið Iceland Aero Agents skráð hjá fyrirtækjaskrá og er með heimasíðu í smíðum með léni sem samsvarar erlenda heitinu. Íslenska flugafgreiðslufélagið er að stærstum hluta í eigu Hjalta Þórs Guðmundssonar lögmanns en Guðmundur Þengill Vilhelmsson er skráður framkvæmdastjóri. Guðmundur sagðist ekki geta tjáð sig um málið í samtali við Markaðinn.

Í fjárfestakynningu Íslenskra verðbréfa, sem vinnur að fjármögnun Play, kemur fram að félagið hafi samið við nýtt fyrirtæki sem mun sjá um alla flug­afgreiðslu á Keflavíkurflugvelli á „áður óþekktum kjörum“. Var þá ljóst að fyrirtækið yrði ekki í viðskiptum við Airport Associates eins og WOW air. Þá segir í annarri fjárfestakynningu frá Play að samkvæmt viðskiptaáætlun félagsins muni það spara samanlagt um 2,2 milljarða króna á þeim samningum sem það hafi gert um flugafgreiðslu á árunum 2020 til 2022 samanborið við fyrri samninga WOW air.

Play hefur þegar gengið til samninga við Íslenska flugstéttarfélagið um gerð kjarasamninga við bæði flugmenn og flugliða og er áætlað að launakostnaður félagsins verði töluvert minni en hann var hjá WOW air. Gert er ráð fyrir að hefja flug á tveimur Airbus A320 flugvélum til sex áfangastaða í Evrópu í vetur. Fjórum flugvélum af sömu tegund verður síðan bætt við í vor og verður þá hafið flug til fjögurra stórborga í Norður-Ameríku.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×