Gagnrýni

Hver pantaði The Shining með vanillubragði?

Heiðar Sumarliðason skrifar
Doctor Sleep er nú komin í kvikmyndahús.
Doctor Sleep er nú komin í kvikmyndahús.
Um síðastliðna helgi kom Doctor Sleep í kvikmyndahús. Hún er framhald hinnar 39 ára gömlu The Shining. Báðar byggja þær á samnefndum skáldsögum eftir Stephen King.Í Doctor Sleep hittum við skyggna krúttið úr The Shining, Danny Torrance (Ewan McGregor), sem nú er vaxinn úr grasi. Líkt og svo margir sem hafa lent í stórum áföllum um ævina (að vera eltur af andsetnum föður sínum með öxi hlýtur að teljast teljast nokkuð stórt áfall) hefur Danny hallað sér að flöskunni og því sigið á ógæfuhliðina. Þegar hann þurrkar sig upp kemst hann í kynni við hina 13 ára Abra Stone (Kyliegh Curran), sem býr yfir sömu skyggnigáfu og hann. Í sameiningu þurfa þau að sigrast á hálfgerðu vampírugengi, sem nærist á orkunni sem skyggnigáfa þeirra getur leyst úr læðingi.

 

Þessir tveir hafa máttinn.
Mike Flanagan, leikstjóri myndarinnar, hefur notið nokkurrar velgengni á undanförnum árum í hrollvekjudeildinni, með myndum á borð við Oculus, Before I Wake og Gerald´s Game. Myndirnar hans fá yfirleitt nógu góða dóma til að meðaleinkunn þeirra rétt slefi yfir þrjár stjörnur (flestar hrollvekjur skora töluvert lægra).Ef ætlunin er að gera bærilegt en auðgleymt skemmtiefni innan hrollvekjugeirans er hann fullkominn valkostur. Leikstjóri The Shining var hinsvegar Stanley Kubrick, þungavigtarmaður sem gerði ekki bara hina stórkostlegu The Shining, heldur goðsagnakenndar kvikmyndir á borð við 2001: A Space Odyssey, A Clockwork Orange og Dr. Strangelove. Maður veltir því fyrir sér hvað búi að baki ákvörðun Warner Brothers að fá Flanagan í risavaxna skó Kubricks.


 

2001: A Space Odyssey er listaverk.
Sú opinbera orrahríð sem varð á milli Kubricks og Kings vegna kvikmyndaútgáfunnar af The Shining er vel þekkt. King var ósáttur við meðhöndlun Kubricks á bókinni, á meðan Kubrick sagði persónusköpun Kings ómerkilega og að söguþráðurinn væri það eina góða við bókina.Flanagan á hins vegar í góðu sambandi við Stephen King eftir að hafa gert Gerald´s Game fyrir Netflix upp úr samnefndri skáldsögu hans. Með ráðningu Flanagans ætluðu Warnerbræður augljóslega að sneiða hjá allri úlfúð. Hér áttu öll dýrin í skóginum að vera vinir og stefnt á að gera snotra framhaldsmynd í mesta bróðerni. Andrúmsloftið er meira að segja orðið svo létt að King er farinn að mýkjast í afstöðu sinni til kvikmyndaútgáfu Kubricks. 


 

Kubrick hefði sjálfsagt átt að vera kurteisari við King.
Warnerbræður uppskera nú eins og þeir sáðu með þessari nálgun sinni, rétt svo bærilega en auðgleymda mynd, slétta og fellda The Shining fyrir stafrænu öldina.Danny Torrence er of flöt og óáhugaverð aðalpersóna til að keyra áfram góða bíómynd. Leiðtogi gengisins ógurlega, Rose the Hat (Rebecca Ferguson), daðrar við og fer svo í sleik við tilgerðina. Það eina sem bjargar myndinni er Abra Stone, sem kemur með ferskleika og ákafa inn í sögu sem sárlega hefði þurft á meiru slíku að halda. 

 

Kyliegh Curran sem Abra Stone er óumdeild stjarna Doctor Sleep.
Augljóslega eru leikstjórarnir Kubrick og Flanagan ekki í sama þyngdarflokki. Og þegar takast á við þungavigtarverkefni líkt og framhald af The Shining þarf til þess þungavigtarleikstjóra. Leikstjóra, sem líkt og Kubrick, er með sértæka sýn á verkefnið. Ef ekki, er betur heima setið en af stað farið.Doctor Sleep þurfti sárlega á leikstjóra og handrithöfundi að halda sem hafði betri tilfinningu fyrir því hvað gekk upp og hvað ekki í bók Kings. Kannski hafði Flanagan tilfinninguna fyrir því sem þurfti að gera en höfundurinn of valdamikill í þessu tilfelli. Mögulega vildi hann ekki rugga bátnum til að halda vini sínum King góðum. Líklega komumst við aldrei að því og verðum að láta okkur getgátur nægja.


Viðkunnanlegir menn. King og Flanagan á góðri stundu.
Það sem The Shining og Doctor Sleep eiga sameiginlegt er að þær eru hægar, sem er í góðu lagi, margar af bestu kvikmyndum sögunnar taka sér tíma og flýta sér ekki um of. Munurinn er sá að á meðan The Shining vekur allan tímann ugg í brjósti gerir Doctor Sleep það of sjaldan. Það sem hið hæga tempó hennar gerir, er að draga athygli að því hve ávöl og varfærin hún er. Það er púki í The Shining og hún er hættuleg. Það eitt að halda á VHS hlustrinu á myndbandaleigunni í gamla daga skóp ugg í brjósti mér. Myndin sjálf kom svo ímyndunaraflinu af stað og fékk mig til að trúa að það væri meira í þessum heimi en augað næmi, á meðan Doctor Sleep bara svæfir. Það er sorglegt að 39 árum síðar sé þetta allt og sumt sem áhorfendum er boðið upp á.


 

Þeir sem eldri eru muna sjálfsagt eftir þessu hulstri af myndbandaleigunum.
Útgáfa framhaldsmynda sem enginn vildi, ásækir nú gesti kvikmyndahúsanna líkt og nakin gömul kona nýstigin upp úr baðkari. Sú dræma aðsókn sem Terminator: Dark Fate hlaut um þar síðustu helgi sýndi að hún er ein þessara mynda sem enginn vildi og vonandi er Terminatorsagan hér með öll. Doctor Sleep var einnig tekið með fálæti, hún rétt skreið yfir þúsund selda miða um síðustu helgi á Íslandi og var tekin í karphúsið af Hvolpasveitinni í miðasölukeppninni. Sú fyrirætlun Warnerbræðra að fylgja henni eftir með þriðju myndinni hefur mjög líklega verið kveðin niður og það án aðstoðar særingamanns. The Shining á skilið betra viðhengi en þessa vanilluframhaldsmynd sem verður líkt og frændi hennar vanillukók, gleymd og grafin áður en langt um líður. 

 

Þessi gengur í endurnýjun lífdaga í Doctor Sleep.
Doctor Sleep var tekin fyrir í síðasta þætti Stjörnubíós. Þar spjallaði undirritaður við blaðamanninn Þórarinn Þórarinsson og leikarann Hannes Óla Ágústsson en þeir voru heldur jákvæðari í garð myndarinnar. Hægt er að hlýða á þáttinn hér. 

 

 

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Doctor Sleep vakti ekki áhuga kvenna og kolféll

Tölur yfir bíóaðsókn helgarinnar í Bandaríkjunum hafa verið birtar. Samkvæmt þeim hefur Doctor Sleep, framhaldið af The Shining, aðeins halað inn 14,1 milljón dollara.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.