Handbolti

Sportpakkinn: Einn besti leikmaður Olís-deildarinnar er með 15 manns í vinnu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eftir að hafa horfið af handboltasviðinu um tíma hefur Guðmundur Árni Ólafsson komið eins og stormsveipur inn í lið Aftureldingar sem er á toppi Olís-deildar karla.

Guðmundur Árni lék sem atvinnumaður í Danmörku í nokkur ár en sneri aftur heim til Íslands 2016.

„Þegar ég kom heim var ég kominn í fyrirtækjarekstur. Það tók ansi mikinn tíma frá mér og ég hafði mikinn metnað á því sviði,“ sagði Guðmundur Árni í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

„Ég reyndi eins og ég gat að halda mörgum boltum á lofti en það var erfitt. Ég lét reyna á fyrirtækjareksturinn sem ég er ennþá með. Ég er með um 15 starfsmenn í vinnu og þegar það var komið á mjög góðan stað gat ég farið að einbeita mér aftur að handboltanum og hungrið kom. Ég saknaði þess að spila á hæsta getustigi.“

Eftir að hafa spilað með HK í Grill 66 deildinni á síðasta tímabili samdi Guðmundur Árni við Aftureldingu í sumar. Þar hitti hann fyrir gamla þjálfarann sinn úr yngri landsliðunum.

„Ég þekkti Einar Andra [Einarsson]. Hann er þjálfari að mínu skapi og ég vildi spila undir hans stjórn,“ sagði Guðmundur Árni.

Hann verður í eldlínunni þegar Afturelding tekur á móti Haukum í toppslag í Olís-deildinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

„Við vitum að Haukar eru með stóra og sterka en frekar passíva vörn miðað við síðustu tímabil. Báðir þjálfarar eru mjög taktíkst öflugir. Það verða einhverjar hrókeringar og menn þurfa að gera breytingar til að aðlagast leiknum,“ sagði Guðmundur Árni.

„Ég vona að þetta verði mjög jafnt allan tímann eins og flestir okkar leikir og þetta ráðist á síðustu stundu.“

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×