Viðskipti innlent

Og eftir stóðu tvö

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Björnsbakarí á Fálkagötu 18, meðan það starfaði. Við enda Smyrilsvegs má sjá glitta í eina af byggingum Háskóla Íslands, þaðan sem margir svangir stúdentar hafa streymt í bakaríið í gegnum árin.
Björnsbakarí á Fálkagötu 18, meðan það starfaði. Við enda Smyrilsvegs má sjá glitta í eina af byggingum Háskóla Íslands, þaðan sem margir svangir stúdentar hafa streymt í bakaríið í gegnum árin. ja.is

Eftir áratugastarfsemi hefur bakaríinu á Fálkagötu 18 verið skellt í lás. Bakarísbúð Björnsbakarís heyrir sögunni til og munu stúdíóíbúðir koma í þess stað. Neyslubreytingar, samkeppni og samdráttur urðu banabiti bakarísins.

Björnsbakarí lokaði tveimur af fimm verslunum sínum í upphafi árs 2017, verslunum sínum við Lönguhlíð og Dalbraut, vegna samdráttar. Eftir stóðu þrjú útibú; við Hringbraut, Austurströnd á Seltjarnarnesi og Fálkagötu.

Síðastnefnda verslunin hefur verið vinsæll áningastaður háskólanema í gegnum árin enda skammt frá raungreinastofum Háskóla Íslands; Tæknigarði og VR I-III. Aðsókn háskólanema reyndist þó ekki meiri en svo að aðstandendur Björnsbakarís ákváðu að skella í lás á Fálkagötu í haust. Nýr eigandi hyggst breyta því í íbúðir og lýkur þar með næstum aldalangri verslunarsögu rýmsins við Fálkagötu 18.

Lengi í gerjun

Steinþór Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi Björnsbakarís, segir að það hafi í raun verið tvennt sem réð ákvörðuninni: Samdráttur og samkeppni. Björnsbakarí hafi fundið fyrir kólnun hagkerfisins síðustu misseri auk þess sem samkeppnishæfni íslenskra framleiðenda gagnvart stærri framleiðendum og innflutningi sé veik.

„Við erum að berjast við það að á annan tug tonna af bakkelsi er flutt inn til landsins, alla daga ársins,“ segir Steinþór. Það sé erfitt fyrir litla framleiðendur að fóta sig í slíkum straumi. „Litlar verslanir eiga undir högg að sækja, þær eru farnar að draga saman seglin og fleiri bakarísverslanir munu loka eða sameinast. Það á eftir að gerast, það er yfirvofandi samdráttur í þessari grein.“

Verslun Björnsbakarís við Hringbraut er annað þeirra sem eftir standa. Hitt er á Seltjarnarnesi.fbl/vilhelm

En hvernig meturðu stöðuna núna? Ætliði að reyna einhvern veginn að sækja fram eða er varnarstaða framundan?

„Nei, við sækjum ekki fram. Við erum að reyna að fækka fólki eins og við getum og í raun og veru að reyna að verja það sem við höfum,“ segir Steinþór og vísar þar m.a. til þeirra tveggja útibúa sem Björnsbakarí rekur ennþá.

„Annað verðum við bara að hætta með, það liggur alveg ljóst fyrir að það er ekki hægt að borga með starfseminni í dag. Það þýðir ekkert að gráta þetta, svona er bara staðan.“

Baráttan um brauðið

Neyslubreyting hafi jafnframt haft sín áhrif að sögn Steinþórs. Á tímum þar sem annar hver maður virðist vera að sniðganga kolvetni; með aðstoð Atkins, LKL, Sigurjónslífsstílsins eða Keto, er augljóst að bakarí eiga undir högg að sækja, með allt sitt brauðmeti og bakkelsi.

Steinþór telur brauðið þó haft fyrir rangri sök, sem bakarameistarar hafi reynt að leiðrétta. Neysla Íslendinga á brauði sé lítil í alþjóðlegum samanburði og hafi dregist nokkuð saman á undanförnum árum - á sama tíma og offita meðal Íslendinga eykst og nefnir hann í því samhengi umfjöllun Kompáss um fjölgun barna með offitu. Orsökin verði því ekki fundin ofan í brauðboxinu.

„Það er greinilega eitthvað annað sem fólk ætti að hætta að borða. Við höfum reynt að benda á það undanfarin ár en fáum lítinn hljómgrunn. Brauð og kornmeti á að vera hluti af fæðu fólks,“ segir Steinþór en undirstrikar þó að allt er gott í hófi. „Fólk þarf kolvetni og fólk þarf trefjar, ekki síst fyrir heilastarfsemina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×