Körfubolti

Jón Axel er á hinum sögufræga Naismith lista

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson.
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson. Getty/Mitchell Layton
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson er á listanum yfir þá fimmtíu sem menn eiga að fylgjast með í Bandaríkjunum í vetur

Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson er á Naismith listanum fyrir komandi tímabil í bandaríska háskólakörfuboltanum en þar eru samankomnir þeir fimmtíu leikmenn sem eru bundnar mestar væntingar til í vetur.

Jón Axel er að hefja sitt fjórða og síðasta ár með Davidson háskólanum en hann hefur slegið í gegn með frammistöðu sinni undanfarin tímabil.

Það er ljóst að bakvarðarsveit Davidson liðsins ætti að vera í fínu lagi í vetur því félagi Jóns Axels, Kellan Grady, er einnig á fyrrnefndum Naismith lista.

Naismith verðlaunin eru sögufræg og eftirsótt. Það er líka mikill heiður að vera tilnefndur til þeirrra. Í byrjun febrúar verður síðan gefinn út 30 manna listi og undir lok tímabilsins verða fyrst tíu menn tilnefndir og á endanum koma fjórir leikmenn til greina sem leikmaður ársins.

Um leið og leikmenn eru settir á Naismith listann fyrir tímabil þá kemur pressa á að standa sig. Það verður ekki auðvelt fyrir Jón Axel að fylgja eftir mögnuðu tímabili sínu í fyrra.

Jón Axel var þá með 16,9 stig, 7,3 fráköst og 4,8 stoðsendingar að meðaltali í leik og var inn á topp sjö í öllum tölfræðiþáttunum þremur í Atlantic 10 deildinni.

Jón Axel skráði sig í nýliðavali NBA-deildarinnar og æfði hjá nokkrum félögum en meiðsli komu í veg fyrir að hann héldi því áfram. Jón ákvað því að draga sig út og spila lokaárið sitt með Davidson.

Jón Axel sýndi það í landsleikjunum í haust að hann er kominn í hóp bestu körfuboltamanna landsins og það munu örugglega margir fylgjast með honum í leikjum með Davidson í vetur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.