Handbolti

Janus fór á kostum í Ís­lendinga­slagnum | Spennu­sigur hjá PSG

Anton Ingi Leifsson skrifar
Janus í leik með Álaborg.
Janus í leik með Álaborg. vísir/getty
Janus Daði Smárason var markahæsti maður vallarins er Álaborg vann 30-27 sigur á Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Janus Daði skoraði átta mörk úr níu skotum og lagði upp tvö önnur mörk en Álaborg er á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forskot á Ribe-Esbjerg.

Rúnar Kárason skoraði fimm mörk úr tólf skotum fyrir Ribe-Esbjerg og lagði upp sex önnur mörk en Gunnar Steinn Jónsson gerði þrjú mörk. Að auki lagði hann upp tvö mörk.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tvö mörk úr þremur skotum er PSG vann eins marks sigur á Flensburg, 30-29, í dramatískum leik í kvöld.

Sigurmarkið skoraði hinn danski Mikkel Hansen er tæp mínúta var eftir. PSG á toppi A-riðilins með tíu stig en Flensburg er í fimmta sætinu með sjö stig.

Barcelona er með fullt hús stiga á Spáni eftir stórsigur á Frigoríficos Morrazo í kvöld, 39-18, en Aron Pálmarsson komst ekki á blað.

Enginn Íslendingur komst á blað í öðrum Íslendingaslag í Danmörku er Kolding og Bjerringbro-Silkeborg gerðu jafntefli, 27-27.

Ólafur Gústafsson, Árni Bragi Eyjólfsson og félagar í Kolding eru í tólfta sætinu með sex stig en Þráinn Orri Jónsson og félagar í Bjerringbro-Silkeborg eru í 4. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×