Viðskipti innlent

Fjár­festinga­fé­lagið Brim­garðar tapaði um 1,8 milljörðum króna

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Brimgarða
Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Brimgarða
Fjárfestingafélagið Brimgarðar tapaði 1,8 milljörðum króna árið 2018 fyrir tekjuskatt. Árið áður nam tap félagsins um hálfum milljarði króna fyrir tekjuskatt.

Brimgarðar eru í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna. Þau eiga jafnframt matvælafyrirtækin Mötu, Matfugl og Síld og fisk.

Félagið tapaði 1,6 milljörðum króna á fjárfestingum á hlutabréfamarkaði á árinu 2018, samkvæmt ársreikningi Brimgarða. Bókfært virði skráðra hlutabréfa þess nam 5,4 milljörðum króna við árslok, þar af átti það í fasteignafélögunum þremur – Eik, Regin og Reitum – fyrir 4,5 milljarða króna.

Rekja má 838 milljóna króna tap til framvirkra samninga um kaup á hlutabréfum. Árið áður nam það tap 200 milljónum króna. Brimgarðar áttu hlutabréf fyrir 4,5 milljarða króna í framvirkum samningum árið 2018 en skulduðu 5,3 milljarða króna vegna samninganna. Árið áður nam sú eign 2,7 milljörðum króna en skuldin 2,9 milljörðum króna.

Eignir Brimgarða námu 9,9 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 14 prósent við árslok 2018. Félagið á fjölda fasteigna sem metnar eru á 2,2 milljarða króna. Fasteignamat eignanna var hins vegar mun hærra eða tæpir fimm milljarðar króna og vátryggingaverð þeirra var átta milljarðar króna. Miðað við það er eiginfjárstaða Brimgarða í raun betri en fram kemur í ársreikningi.

Á meðal fasteigna Brimgarða er Grandagarður 8, sem hýsir meðal annars leikjafyrirtækið CCP, en fasteignamat þess er 1,6 milljarðar króna, og Völuteigur 2 sem hýsir Matfugl. Fasteignamat þess var 940 milljónir króna en bókfært mat 80 milljónir króna.

Brimgarðar eiga í fleiri fasteignafélögum: Heimavöllum, Almenna leigufélaginu, Gamma 201 fasteignasjóði og 105 Miðborg sem vinnur að uppbyggingu við Kirkjusand.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×