Leikjavísir

The Outer Worlds: Góður leikur og ekkert kjaftæði

Samúel Karl Ólason skrifar
The Outer Worlds gerist í hliðarveruleika árið 2355. Stór fyrirtæki ráða nánast öllu og eru farin að leggja fjarlæg sólkerfi undir sig.
The Outer Worlds gerist í hliðarveruleika árið 2355. Stór fyrirtæki ráða nánast öllu og eru farin að leggja fjarlæg sólkerfi undir sig.
Árið er 2007. Maður kaupir leik og kemst fljótt að því að leikurinn virðist fullkláraður. Framleiðendur leiksins eru ekki að leggja stein í götu mannsins til að reyna að fá hann til að eyða meiri peningum í leikinn í gegnum svokölluð „microtransactions“. Það er engin fjölspilun bara góður og skemmtilegur hlutverka-vísindaskálskapsleikur.

Þessi dæmisaga endurspeglar nútímann að mjög litlu leyti. Þetta er eitthvað sem maður sér ekki oft í framleiðslu tölvuleikja í dag. Outer Worlds er þó í þessum flokki og það fylgir því einstök tilfinning að uppgötva það. Ég er mjög ánægður með Outer Worlds sem er að mörgu leyti hlutverkaleikur af gamla skólanum, þó hann spilist í raun sem fyrstu persónu skotleikur

The Outer Worlds gerist í hliðarveruleika árið 2355. Stór fyrirtæki ráða nánast öllu og eru farin að leggja fjarlæg sólkerfi undir sig. Spilara setja sig í spor aðila sem var fluttur frá jörðinni ásamt fjölda annarra til Halcyon sólkerfisins. Flutningaskipið lendir þó í vandræðum og allir farþegar þess eru frosnir í tæpa öld.

Ferðalag skipsins tók mun lengri tíma en áætlað var og þegar því líkur reynist erfitt að þýða farþegana. Því ákveða yfirvöld Halcyon að yfirgefa farþegana.

Einum er þó bjargað af svolítið klikkuðum vísindamanni. Það er persónan sem spilarar stýra og þarf hún að hjálpa vísindamanninum að frelsa hina farþegana og fella yfirvöld Halcyon. Eða ekki. Leikurinn býður upp á mikið frelsi og til dæmis held ég að tæknilega séð sé hægt að drepa allar persónur leiksins.

Leikurinn þvingar mann þar að auki til að taka erfiðar ákvarðanir fyrir persónur leiksins og í raun ákveða framtíð þeirra. Þar skiptir miklu máli að persónur leiksins eru vel skrifaðar og leiknar.

Mismunandi fylkingum Outer Worlds líkar misvel við þig, eftir því hvernig þú kemur fram við þær og hvort þú leysir einhver verkefni fyrir þær. Það kerfi skiptir þó ekki það miklu máli, þar sem það felur að mestu í sér afslætti í verslunum. Maður nýtir sér verslanir lítið sem ekkert í Outer Worlds.

Outer Worlds tekur sig ekki alvarlega og það er í góðu lagi. Halcyon er stýrt af samstjórn nokkurra fyrirtækja og íbúar sólkerfisins eru ekkert nema aðföng í þeirra augum. Fólk lifir til að þjóna fyrirtækjunum.

Samtöl persóna eru líklega einn af mestu kostum leiksins. Þau eru vel talsett og geta verið  alveg æðislega fyndin. Leikurinn allur er í raun mjög fyndinn og miðað við andrúmsloftið þá er það í góðu lagi.

Maður finnur keiminn af ýmsum áhrifavöldum í Outer Worlds. Þar má helst nefnda Fallout-seríuna og jafnvel hina frábæru þætti, Firefly, og úr leikjum Bioware. Obsidian gerði til dæmis leikinn Fallout: New Vegas og Star Wars: Knights of the Old Republic 2, framhaldsleik KOTOR 1 sem Bioware gerði.

Báðir þeir leikir voru böggaðir í drasl þegar þeir komu út og því var mjög gaman að sjá að það er nánast enga bögga að finna á Outer Worlds.

Líkindin við Fallout eru mikil sem er svo sem skiljanlegt með tilliti til þess að Obsidian gerði Fallout: New Vegas og eldri Fallout-leiki. Það er mjög svipað andrúmsloft yfir leikjunum og bardagakerfin eru sömuleiðis mjög svipuð. Það er ekkert þó ekkert VATS í boði í OW eins og í Fallout. Þar sem maður getur stöðvað leikinn til að skjóta á sérstaka hluta óvina.

Hins vegar getur maður hægt á tíma leiksins í takmarkaðan tíma í Outer Worlds. Það getur reynst mjög mikilvægt til að ná mikilvægum skotum og skjóta óvin í höfuðið úr mikilli fjarlægð.

Það kom mér í raun skemmtilega á óvart hve ágætur skotleikur Outer Worlds er. Hann er langt frá því að vera besti skotleikur í heimi en bardagar í honum eru þó skemmtilegir og stundum krefjandi.

Vopn leiksins eru fjölbreytt og það er skemmtilegur munur á þeim. Hægt er að vera með skammbyssur, riffla, haglabyssur, árásarriffla, stærðarinnar vélbyssur, eldvörpur og ýmislegt fleira. Það er einnig hægt að byggja upp persónu sem reiðir sig á barefli, sverð og annað.

Vísir/Obsidian
Við upphaf leiksins þarf maður að setja saman persónu og ákveða hæfileika hennar og jafnvel fyrra starf. Þegar maður safnar reynslu getur maður svo bætt við hæfileikana og sniðið persónuna áfram, eins og gengur og gerist í hlutverkaleikjum.

Gallar eru þó skemmtileg nýbreytni. Ég á það til að meiða persónu mína við það að hoppa fram af húsum og klettum. Eftir að það hafði gerst í nokkur skipti fékk ég meldingu um að ég gæti tekið á mig ákveðinn galla á hreyfigetu í staðinn fyrir eitt svokallað perk, sem hægt er að nota til að gefa aðalpersónunni ákveðna hæfileika. Það sama gerðist þegar ég hafði orðið fyrir miklum skaða vegna sýru. Ég fékk meldingu um að auka viðkvæmni mína gagnvart sýruárásum og í staðinn fékk ég perk.

Spilarar geta fundið fylgjendur til að elta þá um heima Halcyon. Það er alltaf gaman þegar fylgjendur eru gerðir svona vel, sérstaklega með tilliti til þess að þeir eru aldrei fyrir manni. Það er hægt að ganga í gegnum þá þegar það þarf. Það þarf að útvega þeim vopn og brynjur og hæfileikar þeirra bæta upp hæfileika aðalpersónunnar. Ef aðalpersónan er með litla hæfileika varðandi tækni er kjörið að taka verkfræðing með sér.

Auk þess að bjóða upp á áhugaverð verkefni endurspegla fylgjendur aðalhetjunnar söguheimin sjálfan. Maður lærir meira um leikinn og sögusviðið með því að tala reglulega við þær.

Samantekt-ish

The Outer Worlds er vel heppnaður hlutverkaleikur og það er sérlega ánægjulegt að hann hafi verið tilbúinn þegar hann var gefinn út. Hann spilast vel, lítur vel út og er vel skrifaður. Sagan er áhugaverð og persónurnar eru sömuleiðis vel gerðar.

Ég veit að ég á eftir að spila þennan leik oft. Ég byrjaði á því að spila hetju en næst hugsa ég að ég spili drullusokk, hagi mér eins og fáviti og lumbri á öllum sem pirra mig. Það verður gaman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×