Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 24-25 | Vandræði Valsmanna halda áfram

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals,
Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals, vísir/daníel þór
Haukar unnu sterkan sigur á Hlíðarenda í kvöld er liðið lagði Val að velli með einu marki, 24-25. Leikurinn var kaflaskiptur enn það voru gestirnir sem unnu lokakaflann 5-1 eftir að hafa verið þremur mörkum undir, 23-20. Valur leiddi með einu marki í hálfleik.

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu leikinn betur og leiddu með fjórum mörkum eftir fyrsta korterið, 5-9. Eftir það ákváðu heimamenn að mæta til leiks og með 6-0 kafla leiddu þeir orðið með tveimur mörkum 11-9. Gunnar Magnússon, þjáflari Hauka, tók í kjölfarið leikhlé til að stöðva þetta áhlaup Vals.

Leikurinn var í járnum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og munaði aðeins einu marki á liðunum að honum loknum, 15-14, Val í vil. 

Það dró til tíðinda strax í upphafi síðari hálfleiks, Atli Már Báruson fékk beint rautt spjald eftir átök við Alexander Júlíusson, varnarmann Vals. Dómarar leiksins nýttu sér myndbandsdómgæslu til að skoða atvikið og niðurstaðan var rautt spjald eftir að hafa gefið Alexander olnbogaskot í andlitið. 

Valur tók öll völd á vellinum eftir rauða spjaldið og komst í fjögurra marka forystu, 18-14. Haukar áttu næsta áhlaup og jöfnuðu leikinn í 18-18, og var staðan ennþá jöfn þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum, 20-20. 

Valur var með þriggja marka forystu þegar stutt var eftir, 23-20 en þeir misstu niður forystuna og Haukar jöfnuðu leikinn, 23-23. Gestirnir áttu síðan loka mínútuna og unnu að lokum sterkan sigur, 24-25. 

 

Af hverju unnu Haukar?  

Karakter og liðsheild eins klisjukennt og það er nú. Þeir sýndu gríðalegan karakter þegar þeir snéru leiknum sér í vil á loka metrunum. Eftir að hafa misst einn af lykilmönnum út með rautt spjald þá komu þeir tilbaka og svöruðu fyrir sig

Hverjir stóðu upp úr?

Tjörvi Þorgeirsson, var allt í öllu í sóknarleik Haukanna. Hann skoraði 9 mörk ásamt því að stýra leiknum fyrir sitt lið. Brynjólfur Snær Brynjólfsson var honum næstur með 5 mörk en Grétar Ari Guðjónsson, markvörður liðsins átti virkilega góðan leik í markinu, með 13 varin skot. 

Í liði heimamanna var Magnús Óli Magnússon atkvæðamestur með 7 mörk. Hann var þó aðeins með 50% skotnýtingu. Agnar Smári Jónsson og Anton Rúnarsson voru þar á eftir með 4 mörk hvor, en innkoma Agnars Smára var góð í sóknarleik Vals. 

Þorgils Jón Svölu Baldursson, tók við keflinu af Alexander Júlíussyni í vörninni og var með 11 löglegar stöðvanir á meðan Alexander var með 6. Vörnin var gríðalega þétt hjá Val að vanda, en það skilar þeim þó ekki sigri.  

Hvað gekk illa? 

Það var mikið af töpuðum boltum hjá liðunum, mikill hiti var í leikmönnum og leikurinn því kaflaskiptur. Bæði lið áttu góða og slæma kafla enn það sem gengur fyrst og fremst illa er að Valur er ekki að ná að vinna leiki, þeir missa alltaf niður þá forystu sem þeir koma sér í. 

Hvað er framundan? 

Framundan er landsleikjahlé, næsta umferð deildarinnar er í lok mánaðar, 30. október. 

 

Snorri Steinn Guðjónsson.vísir/daníel
Snorri Steinn: Þetta er ekki eðlilegt

„Tvær mínútur, tæknifeilar og við nýtum ekki færin“ var það sem gerðist á lokakaflanum hjá Val að mati Snorra Steins Guðjónssonar, þjálfara Vals. 

„Þetta eru bara gríðaleg vonbrigði, fyrir utan Fram leikinn þá hefur þetta verið svona hjá okkur. Við erum með undirtökin í leikjunum en þeir virðast ekki þola það“ sagði Snorri um leikinn

Valur gat jafnað leikinn þegar um mínúta var eftir af leiknum en fyrst missir Róbert Aron Hostert boltann úr höndum sér og strax í næstu sókn missir Magnús Óli Magnússon boltann. Snorri segist ekki vita hvað þeim gekk til en segir að þetta sé alls ekki eðlilegt

„Þú verður að spurja þá að því, þetta er ekki eðlilegt“

Valur átti virkilega góða kafla í leiknum, enn misstu forystuna niður hvað eftir annað líkt og í síðustu leikjum. Snorri segist þó ekki taka neitt jákvætt með sér úr þessum leik eins og er enda gríðalega svekktur

„Það er ekkert jákvætt sem ég tek með mér úr þessum leik akkúrat núna, við erum ekki að vinna leiki og það er það eina sem við þurfum á að halda“ sagði Snorri að lokum

 

Gunnar er á sínu fimmta tímabili sem þjálfari Hauka.vísir/bára
Gunni Magg: Við erum með mikið sjálfstraust, að sjálfsögðu

„Þvílíkur karakter og þvílík liðsheild sem við erum með“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka eftir sigurinn gegn Val á Hlíðarenda í kvöld

„Ásgeir meiddist í upphitun, Óli fékk höfuðhögg, Atli var á annarri löppinni áður en hann fékk rautt. Hvernig menn stíga upp eftir þetta, við vorum fjórum mörkum undir og gefumst ekki upp“ 

Gunnar hrósar leikmönnum fyrir sína frammistöðu eftir að hafa misst Ásgeir Örn Hallgrímsson, Ólaf Ægi Ólafsson og Atla Már Báruson úr liðinu, vegna meiðsla eða útilokunar. Gunnar segir að þjálfarateymið hafi verið í því að finna upp ný leikplön en þetta hafi skilað sér að lokum

„Ég viðurkenni að við vorum komnir í gameplan 4 eða 5 hérna í lokin, við vorum alltaf að breyta og breyta og reyna að finna einhverjar lausnir. Enn hvernig við gefumst ekki upp, þessir strákar hafa sýnt enn og aftur, þetta eru ekki alltaf einhverjar sirkus sýningar inná vellinum en karakterinn hjá þeim er að skila þessu“

Haukar hafa verið gagnrýndir fyrir sinn leik fram að þessu, þeir eru að lenda undir í sínum leikjum en þeir koma alltaf til baka. Seiglan í liðinu er gríðaleg og þakkar Gunnar sjálfstraustinu sem liðið hefur eftir að hafa tapað fáum leikjum á síðustu árum

„Hvernig við stöndum saman í mótlætinu og hengjum ekki haus. Við höfum gert þetta svo oft áður, skoðið bara tölfræðina í deildinni síðasta eina og hálfa árið, við töpum ekki mörgum leikjum þannig að við erum með mikið sjálfstraust, að sjálfsögðu.“ sagði Gunnar að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira