Körfubolti

Atvikið þegar læknirinn fékk tæknivíti fyrir að spyrja hvort hún mætti hjálpa meiddum liðsfélaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unnur Tara Jónsdóttir fær hér tæknivillu hjá Ísaki dómara.
Unnur Tara Jónsdóttir fær hér tæknivillu hjá Ísaki dómara. Mynd/S2 Sport
KR-ingurinn Unnur Tara Jónsdóttir fékk tæknivíti í stórleik KR og Vals í Domino´s deild kvenna í gærkvöldi og það er óhætt að segja að það hafi verið mjög óvenjulegt.

Sóllilja Bjarnadóttir fór upp í frákastabaráttu við Helenu Sverrisdóttur í fjórða leikhlutanum og lenti illa. Sjúkraþjálfarar beggja liða voru fljótir inn á völlinn til að huga að meiðslum hennar en einn leikmaður KR-liðsins er læknir.

Læknirninn Unnur Tara var ekki inn á vellinum þegar atvikið gerðist en vildi koma til aðstoðar liðsfélaga sínum þegar ljóst var að meiðslin voru alvarleg.

Leikurinn var stopp og leikmenn Vals voru komnar að sínum bekk. Ísar Ernir Kristinsson, einn þriggja dómara leiksins, var hins vegar ekki tilbúinn að leyfi Unni að koma Sóllilju til aðstoðar. Þegar Unnur Tara ætlaði að biðja annan dómara um leyfi þá gaf Ísak henni tæknivillu.

KR-ingar voru mjög ósáttir með dóminn og Unnur Tara gagnrýndi hann líka í viðtali við Vísi eftir leikinn.

„Ég spurði hvort ég mætti fara inn á völlinn, hann sagði nei og ég sagðist ætla að spyrja annan dómara. Þetta er læknaeiðurinn og þú verður að hjálpa fólki í neyð og ég trúi eiginlega ekki að að þetta sé löglegt það sem að hann gerði,“ sagði Unnur og bar Ísaki Erni dómara ekki vel söguna. „Ég hjálpa öllum sem eru meiddir og á bara mjög erfitt með að trúa þessu,“ sagði hún.

Stöð 2 Sport sýndi leikinn í beinni útsendingu í gær og það náðist á mynd þegar Unnur Tara biður um leyfi til að huga að liðsfélaga sínum en fær aftur á móti tæknivillu í andlitið. Hér fyrir neðan má sjá þetta umdeilda atvik í DHL-höllinni í gær.



Klippa: Tæknivillan sem Unnur Tara fékk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×