Viðskipti innlent

Tapaði 458 milljónum á Icelandair

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Gengið lækkaði um 35% í fyrra.
Gengið lækkaði um 35% í fyrra.
Tap Traðarhyrnu, sem stofnað var um kaup í Icelandair Group í febrúar 2017, jókst í 458 milljónir króna árið 2018 úr 169 milljónum króna árið áður. Gengi Icelandair Group lækkaði um 35 prósent í fyrra og það sem af er ári hefur gengið lækkað um þriðjung.

Traðarhyrna fjárfesti upphaflega í Icelandair Group fyrir 1,7 milljarða króna en við árslok 2018 átti félagið hlutabréf í flugfélaginu fyrir 740 milljónir. Fram kemur í reikningi Traðarhyrnu að félagið hafi í fyrra selt hlutabréf í Iceland­air Group fyrir 310 milljónir króna. Traðarhyrna hefur haldið áfram að minnka hlut sinn á árinu.

Skuldir Traðarhyrnu við lánastofnanir námu 193 milljónum króna við árslok og var eiginfjárhlutfallið 74 prósent.

Athygli vekur að í lok síðasta árs var Traðarsteinn sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og Helgu Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans, ekki lengur á meðal hluthafa Traðarhyrnu. Áður var félagið stærsti hluthafinn með 20 prósenta hlut.

Þorsteinn Már Baldursson, forstjóri Samherja.
Auk þess er Eiríkur Ingvar Þorgeirsson augnlæknir ekki lengur á meðal hluthafa en hann átti 4,6 prósenta hlut við lok árs 2017. Fram kom í ársreikningi að Traðarhyrna hefði keypt eigin bréf fyrir 250 milljónir króna á á árinu.

Jafnframt kom fram í fréttum í ágúst síðastliðnum að Ómar Benediktsson, varaformaður stjórnar Icelandair Group, hefði fært hlutabréfaeign sína í flugfélaginu frá Traðarhyrnu yfir í félagið NT.

Fjögur félög áttu 13,9 prósenta hlut í Traðarhyrnu við árslok: Kvika banki, Snæból í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, Gani í eigu Tómasar Kristjánssonar, N4A í eigu Þóris Alberts Kristinssonar og NT í eigu téðs Ómars.

Aðrir hluthafar eru félög á vegum Margrétar Ásgeirsdóttur hóteleiganda; fjölskyldu Magnúsar Kristinssonar, fyrrverandi útgerðarmanns; Þorvalds Gissurarsonar verktaka, Óttars Þórarinssonar og Fagfjárfestasjóðsins Myllu undir stjórn Júpíters, sjóðastýringar Kviku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×