Viðskipti innlent

Sigmar og Vilhelm breyta banka í veitingastað og bar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Staðurinn hefur fengið nafnið Barion.
Staðurinn hefur fengið nafnið Barion. Vísir/Anton
Viðskiptafélagarnir Sigmar Vilhjálmsson og Vilhelm Einarsson ætla á næstu vikum að opna veitingastað í Mosfellsbæ, þar sem áður var útibú Arion banka. Samkvæmt bæjarblaðinu Mosfellingur er um að ræða sportbar og veitingastað. Síðast ráku Sigmar og Vilhelm saman veitingastaðinn Shake and Pizza í Keiluhöllinni Egilshöll.

Sigmar seldi hlut sinn í Hamborgarafabrikunni og Keiluhöllinni í maí á síðasta ári.

Gamla bankahúsið við Þverholt í Mosfellsbæ sést hér á hægri hönd.Mynd/Já
Staðurinn í Mosfellsbæ hefur fengið nafnið Barion og mun taka 140 manns í sæti. Húsið sem um ræðir stendur á lóðinni Þverholt 1. Nú er verið að breyta húsnæðinu, þar á meðal á bankahvelfingunni sem reyndist flókið verkefni.

Búnaðarbankinn byggði húsið við Þverholt og flutti starfsemi sína í Mosfellsbæ þangað árið 1982. Arion banki lokaði útibúinu í maí í fyrra.

Nýi staðurinn mun meðal annars fylla skarð sportbarsins og veitingastaðarins Hvíti riddarinn sem áður var rekinn í Mosfellsbæ og varð gjaldþrota á síðasta ári.

Fjallað hefur verið um deilur Sigmars og fyrrum viðskiptafélaga hans, Skúla Gunnars Sigfússonar, en þær hafa staðið yfir í mörg ár. Héraðsdómur dæmdi Sigmari í hag árið 2018 en Skúli áfrýjaði til Landsréttar og var málið tekið fyrir í vikunni.

„Ég óska engum að þurfa að standa í svona og hvað þá við gamla viðskiptafélaga,“ skrifaði Sigmar um málið á Facebook síðu sína í vikunni.





Greint var frá því á Vísi í júlí síðastliðnum að Sigmar hafi verið ráðinn talsmaður nýstofnaðs félags í eigu svínabænda, eggjabænda og kjúklingabænda. Félagið heitir FESK og er meginmarkmið þess að stuðla að upplýstri og ábyrgri umræðu um landbúnað á Íslandi. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×