Enski boltinn

Pochettino staðfestir að Lloris hafi verið fluttur á sjúkrahús

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lloris liggur óvígur eftir.
Lloris liggur óvígur eftir. vísir/getty
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, segir að meiðsli Hugo Lloris hafi haft mikil áhrif á Totteham-liðið sem fékk annan skellinn á sömu vikunni er liðið tapaði gegn Brighton í dag.

Hugo Lloris meiddist strax á þriðju mínútu eftir að Brighton skoraði fyrsta markið og Pochettino segir að það hafi haft mikil áhrif.

„Þetta var erfitt fyrir liðið. Á fyrstu augnablikunum fengum við á okkur mark og misstum markvörðinn okkar,“ sagði Pochettino strax í leikslok.

„Þetta var mjög neikvætt fyrir liðið. Tilfinningarnar voru miklar og við spiluðum ekki vel og erum vonsviknir með það. Brighton spilaði vel.“





„Meiðsli Hugo Lloris höfðu mikil áhrif á leikinn og þetta var svo snemma í leiknum. Að fá á sig mark og að missa fyrirliðinn hafði mikil áhrif.“

„Hann er á sjúkrahúsi núna og það er ekkert meira um það að segja á þessum tímapunkti,“ sagði Argentínumaðurinn.

Hann þakkaði hins vegar stuðningsmönnum Tottenham fyrir stuðninginn.

„Ég vil þakka stuðningsmönnunum. Eftir fimm og hálft ár erum við í fyrsta skipti að lenda í vandræðum. Það er ekki góð tilfinning en við verðum að halda áfram að leggja hart að okkur og trúa á þetta.“

„Ég vona að pressan komi á mig en ekki leikmennina. Núna er tímapunkturinn til þess að vera sterkir. Við getum ekki vanmetið stöðuna en við þurfum að leggja á okkur,“ sagði stjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×