Viðskipti innlent

Tryggingin dugði fyrir 190 milljóna kröfum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bragi Hinrik Magnússon, Skúli Mogensen, Þór Bæring og Engilbert Hafsteinsson þegar tilkynnt var árið 2015 að WOW hefði eignast 49 prósent í Gaman-Ferðum.
Bragi Hinrik Magnússon, Skúli Mogensen, Þór Bæring og Engilbert Hafsteinsson þegar tilkynnt var árið 2015 að WOW hefði eignast 49 prósent í Gaman-Ferðum. WOW air
Heildarfjárhæð samþykktra krafna í tryggingafé ferðaskrifstofunnar Gamanferða, sem lagði upp laupana í kjölfar gjaldþrots Wow air í vor, var tæpar 190 milljónir. Byrjað verður að greiða samþykktar kröfur á næstu dögum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ferðamálastofu, sem hafði mál Gamanferða á sinni könnu.

Alls bárust Ferðamálastofu 1.044 kröfur vegna gjaldþrots Gamanferða en rekstrarstöðvunin hafði þó áhrif á ferðaáætlanir yfir þrjú þúsund manns. Lagt var upp með að nýta tryggingafé ferðaskrifstofunnar til hins ítrasta, með það fyrir augum að fólk fengi endurgreitt fyrir ferðir sem láðist að fara í.

Tryggingin dugði að endingu fyrir samþykktum kröfum, sem verða því ekki skertar. Alls voru samþykktar kröfur 980, þar af 36 að hluta. Í 44 tilfellum voru kröfur dregnar til baka og 20 var hafnað en alls nam heildarfjárhæð krafna tæpum 203 milljónum.

Hafi kröfuhöfum ekki borist tilkynning inn í þjónustugátt Ferðamálastofu eða tölvupósti er viðkomandi beðinn að hafa samband við Ferðamálastofu á netfangið mail@ferdamalastofa.is.


Tengdar fréttir

Rúmlega þúsund kröfur vegna Gaman ferða

Ferðamálastofa áætlar að nokkurn tíma muni taka að fara yfir þann mikla fjölda krafna sem gerður var í tryggingafé ferðaskrifstofunnar Gaman ferða, sem lögðu upp laupana í vor.

Gaman Ferðir hætta starfsemi

Ferðaskrifstofan Gaman Ferðir, sem var að 49% hlut í eigu WOW Air, hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og er hætt rekstri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×