Viðskipti erlent

Örlög Thomas Cook gætu ráðist í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Thomas Cook er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki heims.
Thomas Cook er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki heims. Vísir/Getty
Lánadrottnar breska ferðaþjónusturisans Thomas Cook munu hitta stærstu hluthafa fyrirtækisins á neyðarfundi í London í dag þar sem gert er ráð fyrir að örlög félagsins muni ráðast. Ferðaþjónustufyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots.

Talið er að félagið muni fara á hausinn takist ekki að tryggja 200 milljóna punda innspýtingu á næstu dögum, jafnvirði 30 milljarða króna og vonast forsvarsmenn fyrirtækisins til þess að hægt verði að gera einhvers konar samkomulag sem tryggi framtíð félagsins

Thomas Cook er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki heims og selur meðal annars ferðir til Íslands. Talið er að um 150 þúsund breskir ferðalangar gætu orðið strandaglópar lýsi félagið yfir gjaldþroti. Yfirvöld í Bretlandi hafa þegar undirbúið aðgerðir til þess að flytja breska strandaglópa heim, fari félagið á hausinn.

Í frétt BBC er rætt við ferðalanga sem eru í ferð á vegum félagsins í Túnis og hafa hótelstarfsmenn að þeirra sögn neitað að skrá ferðalangana út af hótelinu, vegna ótta um að hótelið fá ekki greitt fyrir dvöl þeirra, fari félagið á hausinn.

Talið er að 600 þúsund ferðalangar séu í ferðalögum á vegum félagsins, sem er elsta ferðaþjónustufyrirtæki Bretlands. Um 20 þúsund starfa fyrir félagið, þar af níu þúsund í Bretlandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×