Menning

Guar­dian segir verk Ragnars Kjartans­sonar besta lista­­verk 21. aldarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Ragnar Kjartansson í baði í verkinu The Visitors.
Ragnar Kjartansson í baði í verkinu The Visitors. i8/Luhring Augustine

The Visitors, myndbandsinnsetning listamannsins Ragnars Kjartanssonar frá 2012, er talið vera besta listaverk 21. aldarinnar að mati blaðamanna breska blaðsins Guardian.

Síðustu daga hefur Guardian birt lista yfir bestu plötur 21. aldarinnar að mati blaðamanna blaðsins, bestu kvikmyndir, teikningar, klassísk listaverk, auk fleiri flokka. Í morgun birtist svo listinn yfir 25 bestu listaverk aldarinnar.

Ragnar er ekki eini Íslendingurinn á listanum en The Weather Project eftir Ólaf Elíasson skipar 11. sæti listans. Á listanum má einnig finna verk Jeremy Deller, Ai Weiwei, Steve McQueen og Pussy Riot.

Verkið The Visitors er myndbandsinnsetning sem sýnir Ragnar og vini félaga hans hittast og spila tónlist á Rokeby Farm í New York, Þar má meðal annars sjá liðsmenn Sigur Rósar og fleiri syngja og spila lag með texta eftir fyrrverandi konu Ragnars, Ásdísi Sif Gunnarsdóttur.

Ragnar og Davíð Þór Jónsson sömdu lagið sem er sagt taka á „sameiginlegum ósigri“ hjónabandsins. Í verkinu eru notast við níu rásir og syngur fólkið mismunandi hluta lagsins, sem er endurtekið aftur og aftur í rúma klukkustund.

Greint var frá því árið 2013 að verkið, öll sex eintökin sem til voru, hafi verið selt á rúmlega 80 milljónir króna árið 2013. Meðal kaupenda voru MoMA í New York og Micro-safnið í Zürich.


Tengdar fréttir

Fimm af frægustu gjörningum Ragnars

Myndlistarmaðurinn Ragnars Kjartanssonar hefur vakið athygli með hinum ýmsu gjörningum, nú síðast með hljómsveitinni The National.

Allir listamenn eru konur

Ragnar Kjartansson myndlistarmaður er á sífelldum þönum við sýningahald um allan heim. Í augnablikinu er hann þó með fókusinn á Íslandi, opnar sýningu í Kling og Bang í dag og hannaði Kærleikskúluna í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×