Fótbolti

Getur ekki beðið eftir að spila á Old Trafford: „Skemmir ekki fyrir að við eigum ágæta möguleika“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson er í íslenska landsliðshópnum sem æfði saman í fyrsta sinn í gær á Laugardalsvelli fyrir komandi leiki.

Ísland mætir Moldóvu á Laugardalsvellinum á laugardaginn. Eftir viku mæta Íslendingar svo Albönum ytra.

Rúnar Már leikur með Astana í Kasakstan en þeir eru komnir í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þar drógust þeir í riðli með Manchester United og Rúnar er því eðlilega spenntur.

„Það er draumur. Ég held að flestir væru tilbúnir að spila á Old Trafford einhvern tímann á lífsleiðinni,“ sagði Rúnar Már fyrir landsliðsæfingu gærdagsins.

„Auðvitað get ég ekki beðið. Það er stutt í þetta en maður er að einbeita sér að því sem er í gangi núna.“

Leikurinn á Old Trafford fer fram eftir rúmar tvær vikur, eða nánar tiltekið þann 19. september, og fólkið hans Rúnars mun mæta fylktu liði.

„Það er mjög sérstakt fyrir mig og fjölskylduna þar sem þar eru margir stuðningsmenn Manchester United. Ég er mjög glaður fyrir hönd vina og fjölskyldu því þau fá að upplifa þetta líka.“

Rúnar gat ekki farið í gegnum viðtalið með því að skjóta aðeins á gengi United og sagði að Astana ætti fínan möguleika gegn enska stórliðinu.

„Þetta verður mjög áhugaverð lífsreynsla og ég held að það skemmi ekki fyrir að við eigum ágætis möguleika líka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×