Viðskipti innlent

43 sagt upp hjá Íslandspósti

Andri Eysteinsson skrifar
Uppsagnirnar eru fyrst og fremst meðal millistjórnenda, á skrifstofu og í póstmiðstöð.
Uppsagnirnar eru fyrst og fremst meðal millistjórnenda, á skrifstofu og í póstmiðstöð. Vísir/Vilhelm
43 starfsmönnum var í dag sagt upp störfum hjá Íslandspósti en Vinnumálastofnun og hlutaðeigandi stéttarfélögum hefur verið gert viðvart. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti.

Í tilkynningunni segir að hópuppsögnin í dag sé liður í nauðsynlegum hagræðingaraðgerðum Íslandspósts sem miða að því að tryggja sjálfbæran rekstur fyrirtækisins og nútímavæðingu starfseminnar. Þá mun stöðugildum innan Íslandspósts fækka um 80 á árinu 2019.

Uppsagnirnar eru fyrst og fremst meðal millistjórnenda, á skrifstofu og í póstmiðstöð. Íslandspóstur mun bjóða öllum sem missa vinnuna ráðgjöf sérfræðinga við atvinnuleit og sálfræðiaðstoð. Þeir starfsmenn sem komnir eru nálægt starfslokaaldri fá einnig sérstaka ráðgjöf.



Stöðugildi innan fyrirtækisins eru fyrir uppsagnir 666 og er því um að ræða 12% fækkun.

Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar leiði til um 500 milljón króna hagræðingar í rekstri Íslandspósts á ársgrundvelli.

„Uppsagnirnar í dag eru sársaukafullar og taka á alla, en eru því miður óumflýjanlegar til að hægt sé að ná settum markmiðum í rekstri fyrirtækisins. Við þökkum starfsfólkinu fyrir þeirra störf og munum leggja okkur fram við að aðstoða það við næstu skref,“ segir Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts og bætir við að tryggt verði að þjónusta verði óbreytt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×