Viðskipti innlent

Herdís snýr sér að rekstri á Reykjalundi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Herdís Gunnarsdóttir var forstjóri Heilbrigðisstofununar Suðurlands frá árinu 2014 en hún stýrir stofnuninni til 30. september.
Herdís Gunnarsdóttir var forstjóri Heilbrigðisstofununar Suðurlands frá árinu 2014 en hún stýrir stofnuninni til 30. september.
Herdís Gunnarsdóttir, fráfarandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs Reykjalundar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi. 

„Herdís hefur margþætta reynslu af rekstri og stjórnun í heilbrigðiskerfinu. Hún var forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands frá 2014 en HSU er ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins með 500 starfmenn á 10 starfsstöðvum.“ segir í tilkynningu frá Reykjalundi.

Herdís lauk BSc-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og meistaraprófi í hjúkrun frá sama skóla árið 2001. Árið 2009 lauk Herdís MBA-prófi frá viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

Áður vann hún um árabil að margvíslegum verkefnum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, m.a. sem verkefnastjóri og klínískur ráðgjafi hjá stjórn heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar, verkefnastjóri á þróunarskrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar, verkefnastjóri mannauðs- og gæðamála hjá Barnaspítala Hringsins og sem hjúkrunardeildarstjóri á barnaskurðdeild og dagdeild. Hún hefur verið klínískur lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ frá 2014.

„Það er mikill fengur fyrir Reykjalund að fá Herdísi í forystusveit okkar. Umfangsmikil reynsla hennar af rekstri og stjórnun heilbrigðisstofnana auk djúprar sérfræðiþekkingar mun nýtast við áframhaldandi faglega og þjónustulega uppbyggingu Reykjalundar á næstu árum,“ segir Birgir Gunnarsson, forstjóri Reykjalundar.

Herdís tekur við starfinu þann 1. október en degi fyrr lýkur hún störfum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Fréttin var uppfærð klukkan 12:46.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×