Tónlist

Sheeran ætlar að fara í langt frí frá tónlistinni

Andri Eysteinsson skrifar
Ed Sheeran hefur lokið leik í bili
Ed Sheeran hefur lokið leik í bili Vísir
Divide tónleikaferðalag Ed Sheeran sem hófst í Tórino á Ítalíu 16. Mars 2017 lauk í gær í Ipswich á Englandi eftir 260 tónleika víða um heim. Til að mynda voru tveir tónleikar haldnir á Íslandi, 117 tónleikar voru alls haldnir í Evrópu, 83 í Norður-Ameríku, fjórir í Afríku og 18 í Eyjaálfu.

Um er að ræða eitt stærsta tónleikaferðalag allra tíma og er talið að Sheeran hafi þénað yfir þrjár milljónir punda á hverju kvöldi.

Sheeran ávarpaði aðdáendur sína í Chantry Park í Ipswich á mánudag og sagði að hann hygðist taka sér langt frí frá tónlistinni.

Tónleikar Ed Sheeran á Laugardalsvelli þóttu góðir.Vísir/Vilhelm
„Eins og þið vitið kannski þá hef ég verið á Divide-ferðalaginu í meira en tvö ár og þetta eru síðustu tónleikarnir. Við höfum troðið upp um allan heim, Glastonbury, Wembley, Bandaríkin, Nýja Sjáland, Asía og Suður-Ameríka. Þetta hefur verið tryllt,“ sagði Sheeran áður en hann greindi frá fréttunum.

„Að vera að klára ferðalagið er ljúfsárt. Ég elska að þið séuð hérna og að þetta endi í Ipswich. Þetta eru síðustu tónleikarnir mínir í örugglega 18 mánuði,“ bætti Sheeran við en tónlistarmaðurinn ólst upp í nágrenni Ipswich.

Mér var sagt, áður en ég steig á svið, að ég hefði spilað fyrir framan um níu milljón manns. Þetta hefur verið tilfinningaþrunginn dagur. Okkur líður einhvern veginn eins og að við séum að hætta með kærustu sem þú hefur verið með í mörg ár. Sjáumst eftir nokkur ár. Takk,“ sagði Sheeran áður en hann hóf að spila síðasta lagið á tónleikaferðalaginu, You Need Me, I Don't Need You.


Tengdar fréttir

Ed í skýjunum með Íslandsdvölina

Ed Sheeran hélt tónleika í Laugardalnum á laugardags- og sunnudagskvöld. Ísleifur Þórhallsson hjá Senu Live er ánægður með helgina, ef frá er talið vandamál með raðir fyrri daginn.

Ed Sheeran sakaður um lagastuld

Íslandsvinurinn Ed Sheeran sem spilaði á tveimur tónleikum á Laugardalsvelli fyrr í mánuðinum fær ekki greidd stefgjöld fyrir lag sitt Shape of You vegna nýrra ásakana um lagastuld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×