Byko áfrýjaði málinu til Landsréttar sem lækkaði sekt Byko í 325 milljónir króna. Í niðurstöðu Landsréttar kom fram að rétturinn teldi að þegar brot Byko á samkeppnislögum væru metin heildstætt yrði að leggja til grundvallar að um væri að ræða alvarleg brot sem beindust gegn mikilsverðum hagsmunum neytenda. Brotin hefðu verið framin af ásetningi.
Lækkun Landsréttar á 400 milljóna króna sektinni sem ákveðin var í héraðsdómi byggði meðal annars á því að Landsréttur féllst ekki á það með Samkeppniseftirlitinu að Byko hefði einnig brotið gegn EES-samningnum.
Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að eftirlitið telji að Landsréttur hafi ekki beitt banni EES samningsins við samkeppnishamlandi samráði með réttum hætti. Þá telur eftirlitið að sú sekt sem Landsréttur taldi hæfilega byggi á röngum forsendum og tryggi ekki nægjanleg varnaðaráhrif. Sökum þessa óskaði Samkeppniseftirlitið eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Hefur Hæstiréttur nú samþykkt þá beiðni Samkeppniseftirlitsins.
Múrbúðin leitaði til Samkeppniseftirlitsins
Aðdragandi málsins er sá að í maí 2015 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Byko hefði brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Var um að ræða verðsamráð á mikilvægum byggingavörum.Málið hófst þegar Múrbúðin snéri sér til Samkeppniseftirlitsins og gerði grein fyrir tilraunum Byko og gömlu Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til að taka þátt í hinu ólögmæta samráði. Taldi Samkeppniseftirlitið að um alvarleg brot væri að ræða og lagði 650 milljóna króna sekt á Norvik, móðurfélag Byko.
Norvik og Byko kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í október 2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Byko hefði tekið þátt í ólögmætu verðsamráði og brotið gegn samkeppnislögum. Hins vegar féllst nefndin ekki á að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin.
Einnig taldi nefndin að brot Byko hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar. Taldi nefndin því hæfilegt að lækka sekt Byko úr 650 milljónum króna í 65 milljónum króna.
Héraðsdómur taldi hins vegar brotin mun alvarlegri og hækkaði sekt Byko að kröfu Samkeppniseftirlitsins. Féllst héraðsdómur einnig á það með eftirlitinu að Byko hefði brotið gegn banni EES samningsins við samkeppnishamlandi samráði.