Innlent

Vill fá að setja upp skilti

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður.
Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður. Fréttablaðið/Vilhelm
Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður, og sambýliskona hans, Svava Ingimarsdóttir, eru ósátt við að fá ekki að setja upp auglýsingaskilti nálægt sundlauginni á Hofsósi. Beiðninni var hafnað þar sem það yrði innan um íbúðabyggð. Á þessum stað er hins vegar nú þegar auglýsingaskilti fyrir safn á Sauðárkróki.

Umrætt skilti yrði fyrir Ás prjónagallerí sem Svava rekur á Hofsósi. Skiltið sem nú þegar er á staðnum auglýsir Puffin and Friends. Sigurjón sendi bréf þar sem hann óskaði eftir að ákvörðuninni yrði snúið við og vísaði í jafnræðisreglu.

„Það er sofandaháttur gagnvart Hofsósi,“ segir Sigurjón. „Ef það á að byggja eitthvað upp þá verður að fá að kynna þá starfsemi á staðnum.“

Hann segir einnig að svarið hafi borist seint sem sé bagalegt í ljósi þess að aðalferðamannatíminn sé rúmlega hálfnaður. Ef ekki verður orðið við endurupptökunni hyggst Sigurjón fara með málið til æðra úrskurðarvalds en það tekur marga mánuði.

Jón Örn Berndsen, skipulags- og byggingafulltrúi, segir að það sé ekki stefna sveitarfélagsins að skilti fái að vera á stöðum sem þessum. Puffin and Friends hafi fengið tímabundið leyfi til tveggja ára, sveitarstjórnin hafi verið að „fikra sig áfram“. Nú sé leyfið útrunnið en handvömm hafi valdið því að það hafi ekki verið tekið niður. „Það á ekki að mismuna fólki,“ segir Jón.

Puffin and Friends hafa verið í samstarfi við sveitarfélagið um rekstur upplýsingamiðstöðvar á Sauðárkróki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×