Viðskipti innlent

Ólafur Ragnar fer í stjórn Kerecis

Hörður Ægisson skrifar
Guðmundur F. Sigurjónsson forstjóri og ÓIafur Ragnar.
Guðmundur F. Sigurjónsson forstjóri og ÓIafur Ragnar. Fréttablaðið/Valli
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, mun taka sæti í stjórn íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis á hluthafafundi sem hefur verið boðaður fimmtudaginn 1. ágúst næstkomandi.

Í fundarboði til hluthafa Kerecis, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er greint frá því að Ólafur Ragnar hafi verið tilnefndur til þess að taka sæti í stjórn félagsins í stað Hilmars Braga Janussonar, forstjóra líftæknifyrirtækisins Genís á Siglufirði. Kerecis er með höfuðstöðvar sínar og framleiðslu á Ísafirði, sem er jafnframt heimabær Ólafs Ragnars, en félagið framleiðir afurðir sem byggðar eru affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Kerecis lauk fyrr á þessu ári fjármögnun fyrir sextán milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða króna. Á meðal þeirra sem bættust þá við hluthafahóp Kerecis voru samtökin Emerson Collective, sem voru stofnuð af Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs, stofnanda Apple. Miðað við almenna gengið í hlutafjárhækkuninni gæti virði Kerecis verið allt að 12,4 milljarðar króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×