Handbolti

Hanna Guðrún tekur eitt tímabil enn og Sólveig Lára og Elena semja líka við Stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hanna Guðrún Stefánsdóttir.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir. Vísir/Vilhelm

Kvennalið Stjörnunnar hefur samið við þrjá öfluga leikmenn fyrir næsta tímabil í Olís deildinni í handbolta. Leikmennirnir sem hafa samið eru Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Sólveig Lára Kjærnested og Elena Birgisdóttir.

Stjarnan segir frá þessum samningum inn á fésbókarsíðu sinni. Hanna Guðrún er hornamaður, Sólveig Lára er örvhent skytta og Elena er línumaður.

Hanna Guðrún spilaði með Stjörnunni á síðasta tímabil en hinar tvær eru að koma til baka. Sólveig Lára Kjærnested er að koma til baka úr barnsburðarleyfi en Elena spilaði með Førde í Noregi á síðasta tímabili.

Hanna Guðrún Stefánsdóttir er reyndasti leikmaður úrvalsdeildar kvenna frá upphafi en hún er að hefja sitt 24. tímabil í efstu deild á Íslandi. Hanna Guðrún hefur spilað yfir 420 deildarleiki og er búin að spila á öllum tímabilum frá 1995/96 nema 2003/04 þegar hún spilaði erlendis. Hún er orðin fertug en ætlar að taka eitt tímabil í viðbót.

„Hanna er fyrirmynd allra yngri leikmanna, er prúð á velli en lætur verkin tala. Hún gefst aldrei upp og alltaf er hægt að treysta á kraft og sigurvilja hjá Ungfrú Handbolta, segir um Hönnu í frétt á fésbókarsíðu Stjörnunnar.

Sólveig Lára Kjærnested spilaði ekkert með Stjörnunni á síðasta tímabili þar sem hún var ófrísk. Sólveig Lára er einnig gríðarlega reynslumikill leikmaður.

„Sólveig Lára er leikmaður sem allir mótherjar hræðast, enda hefur hún skilið þær margar skólausar eftir sínar frægu fintur. Öll góð lið þurfa að hafa leikmann eins og Sólveigu, þar sem tækni, styrkur og barátta smella saman. Hún er í miklum metum hjá meðspilurum sínum, hvort sem það hefur verið hjá Stjörnunni eða landsliði. Enda ein af okkar allra bestu, innan sem utan vallar, segir um Sólveigu í frétt á fésbókarsíðu Stjörnunnar.

Elena spilaði með Førde í Noregi á síðasta tímabili með góðum árangri enda öflugur línumaður en hún hafði áður spilað með Garðarbæjarliðinu.

„Elena er skemmtileg og traustur liðsfélagi með stórt Stjörnu-hjarta. Enda á hún góðar minningar í Garðabænum þar sem hún hefur lyft nokkrum bikurum með liðinu. Elena hefur verið viðloðandi A-Landslið Íslands og stefnir hátt á komandi árum,“ segir um Elenu í frétt á fésbókarsíðu Stjörnunnar.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.