Viðskipti innlent

Berjaya greiðir um sjö milljarða fyrir hlutinn

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Icelandair Hotels rekur meðal annars hótelið Reykjavík Natura við Nauthólsveg. Tekjur hótelkeðjunnar námu 97 milljónum dala í fyrra og þá var samanlögð EBITDA félagsins um tólf milljónir dala.
Icelandair Hotels rekur meðal annars hótelið Reykjavík Natura við Nauthólsveg. Tekjur hótelkeðjunnar námu 97 milljónum dala í fyrra og þá var samanlögð EBITDA félagsins um tólf milljónir dala. Fréttablaðið/Ernir
Malasíska fyrirtækjasamsteypan Ber­jaya Land Berhad, sem var stofnuð af milljarðamæringnum Vincent Tan, eiganda breska knattspyrnufélagsins Cardiff City, mun greiða 53,6 milljónir dala, jafnvirði um 6,7 milljarða króna, fyrir 75 prósent hlutafjár í Icelandair Hotels og þeim fasteignum sem tilheyra hótelrekstrinum miðað við núverandi stöðu veltufjármuna og vaxtaberandi skulda hótelkeðjunnar.

Kaup malasíska risans eru jafnframt háð því að skuldir Icelandair Hotels verði endurfjármagnaðar með nýjum lánum upp á 64 til 72 milljónir dala sem jafngildir átta til níu milljörðum króna.

Frá þessu er greint í tilkynningu sem Berjaya sendi malasísku kauphöllinni í fyrrakvöld.

Í tilkynningu malasíska félagsins er jafnframt tekið fram að kaupin í Icelandair Hotels geri félaginu kleift að hefja innreið á íslenskan markað fyrir lúxushótel sem gert sé ráð fyrir að vaxi enn frekar þegar til framtíðar sé litið.

Haft er eftir Vincent Tan, sem gegnir stjórnarformennsku í Berjaya-samsteypunni, í malasískum fjölmiðlum að hann sé afar ánægður með fjárfestinguna sem feli í sér „lágan aðgangskostnað“. Bendir hann á að kaupverðið sé um 75,1 þúsund dalir, jafnvirði um 9,4 milljóna króna, fyrir hvert hótelherbergi.

Fram kom í tilkynningu sem Icelandair Group sendi kauphöllinni hér á landi á laugardag að heildarvirði hótelkeðjunnar og tengdra fasteigna – hlutafé og vaxtaberandi skuldir – væri 136 milljónir dala, um 17,1 milljarður króna, í viðskiptunum.Vincent Tan á leik Cardiff í maí í fyrra.Getty/Nathan Munkley
Í tilkynningu Berjaya er hins vegar upplýst um að hlutafé Ice­landair Hotels og fasteignanna sé metið á 71,5 milljónir dala í viðskiptunum miðað við stöðu vaxtaberandi skulda keðjunnar, sem séu 64 milljónir dala, og veltufjármuna hennar. Áætlað kaupverð á 75 prósentum hlutafjárins sé þannig liðlega 53,6 milljónir dala en endanlegt verð mun ráðast af fjárhagsstöðu hótelkeðjunnar þegar kaupin ganga í gegn í lok ársins.

Kaupverðið á hótelkeðjunni, sé miðað við heildarvirði hennar, 136 milljónir dala, er nálægt neðri mörkum þeirra óskuldbindandi tilboða sem fjárfestar sem fóru áfram í aðra umferð söluferlisins gerðu í keðjuna.

Þannig upplýsti Markaðurinn um það snemma á þessu ári að tilboð umræddra fjárfesta, sem voru meðal annars Keahótel og Reginn, sem skiluðu inn sameiginlegu tilboði, og sjóður í stýringu Blackstone, eins stærsta fjárfestingarsjóðs heims, hafi numið á bilinu 140 til 165 milljónum dala.

Auk skilyrða um endurfjármögnun á skuldum Icelandair Hotels, eins og áður var lýst, eru kaup Berjaya meðal annars háð samþykki dómsmálaráðuneytisins á grundvelli laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, eftir því sem fram kemur í tilkynningu malasíska félagsins. Ráðgjafafyrirtækið PwC á Íslandi hefur þegar gert áreiðanleikakönnun á hótelkeðjunni fyrir Berjaya en Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var ráðgjafi malasísku samsteypunnar í viðskiptunum.

Tekjur Icelandair Hotels, sem rekur alls þrettán hótel auk sumarhótelkeðjunnar Hótel Eddu, námu 97 milljónum dala, jafnvirði 12,2 milljarða króna, í fyrra og var EBITDA hótelrekstrarins – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – á sama tíma jákvæð um sjö milljónir dala. Samanlögð EBITDA hins selda – hótelkeðjunnar og fasteignanna – var um tólf milljónir dala á árinu. 


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
SYN
5,33
12
19.164
BRIM
4,76
17
260.514
ORIGO
2,41
18
252.150
VIS
2,21
6
57.872
EIM
2,05
2
15.025

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
-1,2
70
49.732
HAGA
-1,01
8
100.242
ARION
-0,79
23
160.956
MAREL
-0,68
12
30.098
LEQ
-0,43
2
5.475
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.