Viðskipti erlent

Insta­gram prófar að fela „læk­fjölda“

Sylvía Hall skrifar
Yfirmaður hjá Facebook vonar að breytingarnar verði til þess að fólk deili frekar því sem það hefur áhuga á í stað þess að sækjast eftir "likes“.
Yfirmaður hjá Facebook vonar að breytingarnar verði til þess að fólk deili frekar því sem það hefur áhuga á í stað þess að sækjast eftir "likes“. Vísir/Getty
Samfélagsmiðillinn Instagram mun hefja nýja tilraun í því skyni að sporna við félagslegri pressu sem margir notendur segjast finna fyrir á miðlinum. Tilraunin gengur út á það að fela þau „like“ sem einstaklingar fá á færslurnar sínar og mun hefjast í nokkrum löndum í dag, þar á meðal í Ástralíu og Japan.

Á vef BBC kemur fram að í stað fjölda munu notendur nú einungis sjá ákveðið notendanafn og „aðrir“ þegar kemur fram hverjum líkar við færslur. Þeir sem birta færsluna geta þó sjálfir geta séð hversu mörgum líkar við hana en aðrir notendur munu ekki sjá þann fjölda nema þeir ýti sérstaklega á yfirlit yfir hverjum hefur líkað við færsluna.

Ákveðið var að ráðast í tilraunina eftir að umræða um vanlíðan notenda fór að verða meira áberandi. Notendur, þá sérstaklega ungir notendur, töluðu um aukna félagslega pressu sem fylgdi samfélagsmiðlinum og hversu miklu máli það skipti þau að fá tiltekinn fjölda „likes“ á færslur sínar. Var þetta talið ýta undir verra sjálfstraust og oft brotna sjálfsmynd.

Mia Garlick, yfirmaður hjá Facebook í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, segir vonir bundnar við að tilraunin muni skila sér í betri upplifun notenda og að markmiðið sé að fólk geti farið að einblína meira á að „segja sína sögu“ en að fá tiltekin fjölda til þess að líka við færslurnar sínar.

„Við vonum að þessi tilraun muni fjarlægja þá pressu sem fylgir því að fylgjast með fjölda „likes“ á færslur,“ sagði hún.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×