Lífið

Halle Bailey ráðin í hlutverk hafmeyjunnar Aríel í nýrri mynd frá Disney

Andri Eysteinsson skrifar
Halle Bailey söng meðal annars á Grammy verðlaunahátíðinni í febrúar.
Halle Bailey söng meðal annars á Grammy verðlaunahátíðinni í febrúar. Getty/Kevin Winter

Leikin útgáfa Litlu Hafmeyjunnar er í bígerð hjá Disney en teiknimyndin um Aríel, Úrsúlu, Flumbra, Sæfinn og Skutul kom út árið 1989 og byggir á sögunni eftir Hans Christian Andersen. Independent greinir frá.

Nú hefur 19 ára söngkona verið ráðin til að taka við hlutverki hafmeyjuprinsessunnar Aríel af söng- og leikkonunni Jodi Benson sem ljáði Aríel rödd sína í þremur teiknimyndum auk þáttaraðar. Sú söngkona er Halle Bailey sem syngur ásamt eldri systur sinni í dúettinum Chloe X Halle.

Halle vakti fyrst athygli eftir að ábreiða hennar á Beyonce laginu Pretty Hurts fór í alla króka og kima internetsins árið 2013. Þremur árum síðar hitaði hún upp fyrir Beyonce á tónleikaferðalagi hennar um Evrópu ásamt Chloe systur sinni.

Systurnar endurtóku svo leikinn í Bandaríkjunum í fyrra á tónleikaferðalagi Beyonce og Jay Z, On The Run II.

Systurnar hafa einnig leikið í þáttunum Grown-ish og fluttu þá einnig lagið America the Beautiful fyrir byrjun leiksins um Ofurskálina, Superbowl, í febrúar í ár.

Bailey hefur sagt að hafa hlotið hlutverk Aríelar sé draumur í dós. Leikstjóri verkefnisins, Rob Marshall segir um Bailey að hún hafi einstaka blöndu rétta persónuleikans og stórkostlegrar söngraddar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.