Viðskipti innlent

Þórólfur enn undrandi og leggst yfir gögnin frá hæfnisnefnd

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórólfur Árnason er forstjóri Samgöngustofu.
Þórólfur Árnason er forstjóri Samgöngustofu. Vísir/Sigurjón
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, undrast það hve langan tíma það hafi tekið fyrir hann að fá gögn í hendur sem hann kallaði eftir frá Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu vegna skipunar Jóns Gunnars Jónssonar í hans stað. Gögnin bárust „loksins“ í gær að sögn Þórólfs.

Þórólfur hefur gegnt stöðu forstjóra frá árinu 2014 og sóttist eftir að gegna starfinu áfram. 23 sóttu um starfið og var tilkynnt þann 3. júní að hæfnisnefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu að skipa Jón Gunnar.

„Ég sóttist eftir stöðunni og er mjög undrandi að vera ekki metinn hæfastur. Sérstaklega í ljósi reynslu og þekkingar og að allt hafi gengið vel hjá Samgöngustofu,“ sagði Þórólfur í samtali við Vísi þann 3. júní. Hann sagðist ætla að krefjast rökstuðnings frá ráðuneytinu.

„Ég hef verið að reka á eftir þessu og fékk loksins, loksins, í gær hluta af þeim gögnum sem ég hef beðið um,“ segir Þórólfur.

„Ég á eftir að fara yfir þau til þess að kanna hvort þau séu fullnægjandi. Ég mun svo ákveða næstu skref í málinu.“

Aðspurður hvaða gögn um ræði segir hann þetta einfaldlega ýmis gögn sem hann hafi beðið um varðandi ráðningarferlið sem hann skilur ekkert í frekar en þegar ráðning Jóns Gunnars var tilkynnt.

„Þetta er jafnóútskýrt og óskiljanlegt og það var þá, öllum sem til málsins þekkja.“

Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra skipaði Jón Gunnar forstjóra að undangengnu mati hæfnisnefndar sem mat sömuleiðis Jón Gunnar hæfastan. Ráðherra tilkynnti Þórólfi með hálfs árs fyrirvara að starfið yrði auglýst.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×