Viðskipti innlent

FME sagði Ólaf enn formann LIVE

Helgi Vífill Júlíusson og Ari Brynjólfsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir segir að því fylgi mikil ábyrgð að gæta sparifjár fólks og tryggja því góðan lífeyri þegar starfsævinni lýkur.
Guðrún Hafsteinsdóttir segir að því fylgi mikil ábyrgð að gæta sparifjár fólks og tryggja því góðan lífeyri þegar starfsævinni lýkur. Fréttablaðið/Anton Brink
Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt Ólafi Reimari Gunnarssyni að hann sé enn stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, LIVE. Þetta segir hann í samtali við Fréttablaðið.

Fulltrúaráð VR samþykkti á fundi á fimmtudagskvöld að afturkalla umboð allra fjögurra stjórnarmannanna sem félagið skipar í stjórn LIVE og tilnefna nýja í þeirra stað. Brugðið var á það ráð í kjölfar vaxtahækkunar á breytilegum verðtryggðum húsnæðislánum til sjóðfélaga.

„Fjármálaeftirlitið tilkynnti mér rétt fyrir tilkynningu VR að ég sé enn þá stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna,“ segir Ólafur Reimar Gunnarsson. „Það eru lögfræðingar sem segja að þetta sé ólöglegt en lögmaður sjóðsins, Tómas Möller, segir að þetta sé trúlega löglegt, að fara með þetta í gengum fulltrúaráðið. Ég veit ekki alveg hvernig þetta þróast. Ég hangi bara í lausu lofti.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar LIVE, segist telja að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi beðið eftir að fá tækifæri til að reka fulltrúa VR í stjórn lífeyrissjóðsins því hann hafi ekki haft stjórn á þeim.

„Ég leyfi mér að fullyrða að þessi staða hafi aldrei komið upp í leyfissjóðakerfinu áður,“ segir hún. LIVE er næststærsti lífeyrissjóður landsins og stýrir 713 milljörðum króna. „Ragnar Þór vísar oft til lýðræðislegra vinnubragða en ég fæ ekki séð að þetta sé lýðræðislegt af hálfu stjórnar VR.“

Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún veltir því upp hver viðbrögðin í samfélaginu yrðu ef Samtök atvinnulífsins myndu haga sér með sama hætti. „Það myndi ekki teljast eðlilegt,“ segir hún.

Guðrún hefur setið í stjórn lífeyrissjóða í fimm ár fyrir Samtök atvinnulífsins, fyrst í tvö ár í Festu og nú þrjú ár í LIVE. „Samtök atvinnulífsins hafa aldrei haft afskipti af mínum störfum.“

Ragnar Þór tók til sinna ráða þegar lífeyrissjóðurinn ákvað að hækka breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána úr 2,06 prósentum í 2,26 prósent hinn 24. maí en tveimur dögum áður hafði Seðlabanki Íslands lækkað stýrivexti um hálft prósentustig. Vaxtahækkunin á að taka gildi 1. ágúst næstkomandi.

Guðrún segir að því fylgi mikil ábyrgð að gæta sparifjár fólks og tryggja því góðan lífeyri þegar starfsævinni lýkur. „Við tökum þá ábyrgð alvarlega að ávaxta fé sjóðfélaga. Stjórn lífeyrissjóðsins hefur ekki umboð til annars en að taka á móti iðgjöldum, ávaxta þau á sem hagkvæmasta máta fyrir sjóðfélaga og greiða út lífeyri,“ segir hún og nefnir að sjóðfélagar, þar með talið ellilífeyrisþegar, eigi ekki að niðurgreiða vexti fyrir þá 3.700 manns sem tekið hafa lán hjá sjóðnum með breytilegum vöxtum. „Það er með öllu ólíðandi,“ segir Guðrún.

Hún segir að afturköllun umboðs stjórnarmanna frá VR sé aðför að allri stjórn LIVE en beinist ekki einungis að fulltrúum VR. Átta manns sitja í stjórn lífeyrissjóðsins. Atvinnurekendur skipa fjóra og launþegar fjóra.

„Við höfum unnið vel saman og verið heiðarleg í okkar störfum. Við stóðum öll sem eitt að baki þeirri ákvörðun að hækka vexti í maí,“ segir Guðrún.

Ástæða vaxtahækkunarinnar á umræddum lánum á sama tíma og stýrivextir lækkuðu var að kjör lánanna voru bundin við úrelt viðmið og því voru vextirnir í raun orðnir óeðlilegir.

Ólafur Reimar Gunnarsson sagði skilið við VR í vikunni
„Vextirnir miðuðust við breytingu á ávöxtunarkröfu ákveðins skuldabréfaflokks hjá Íbúðalánasjóði en það voru engin viðskipti með skuldabréfaflokkinn og því ekki hægt að miða við hann lengur. Stjórnin hefur lagt mikla vinnu við að finna ný viðmið. Það eru ekki duttlungar, eins og Ragnar Þór kýs að kalla það,“ segir Guðrún.

Að hennar sögn horfir Ragnar Þór fram hjá því að vextir hafi lækkað mikið frá árinu 2015. Þeir hafi lækkað úr 3,99 prósentum í 2,06 prósent. Í því sé fólgin kjarabót. Enn fremur hafi fastir verðtryggðir vextir verið lækkaðir á sama tíma og tilkynnt var um hækkun úr 3,6 prósentum í 3,4 prósent.

Jafnvel þótt Guðrún sé varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna mun hún ekki verða stjórnarformaður við brotthvarf Ólafs Reimars.

„Við skiptum með okkur hlutverki stjórnarformanns á þriggja ára fresti. Ég var stjórnarformaður í þrjú ár og afhenti keflið til launþega í mars. Launþegar skipa stjórnarformann næstu þrjú ár,“ segir Guðrún.

Þeim sem kusu á fundinum var lofað stjórnarsæti

„Það hitti bara þannig á að daginn sem við ákváðum að hækka vextina þá lækka stýrivextir Seðlabankans,“ segir Ólafur Reimar Gunnarsson sem sat í stjórn VR og var stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

„Eftir að við hækkuðum vextina þá hringdi Ragnar [Þór Ingólfsson] í mig alveg brjálaður og bað mig um að senda greinargerð um af hverju við vorum að hækka vextina. Með þessu værum við að skemma fyrir honum,“ segir Ólafur Reimar, hann var þá í fríi á Spáni.

Í samráði við stjórn lífeyrissjóðsins útbjó hann greinargerð fyrir stjórn VR. „Ég var að reyna að útskýra ákvörðunina í greinargerðinni en fékk þau svör að þetta útskýrði ekki neitt. Ragnari lá mikið á að fá skýringar og boðaði stjórnarfund um hvítasunnuna. Þá komust ekki allir þannig að þessu var frestað fram á síðasta þriðjudag.“

Ólafur segir að útlit hafi verið fyrir að þetta yrði venjulegur stjórnarfundur, útskýringar hans væru eitt af stóru atriðunum sem þyrfti að afgreiða. „Ég útskýrði þetta, hann sneri bara út úr því, það skipti engu máli hvað ég sagði. Síðan dró hann fram plagg þar sem umboðið er tekið af okkur.“

Stjórnin samþykkti tillögu Ragnars Þórs og var málinu vísað til trúnaðarráðsins þar sem umboðið yrði formlega tekið af þeim og aðrir skipaðir í staðinn.

„Einn stjórnarmaðurinn spurði hverja Ragnar vildi fá í staðinn, hann vildi ekki segja það til að byrja með. Hann sagði svo að það fólk væri á fundinum. Þá kemur í ljós að Ragnar var búinn að hringja í menn og bjóða þeim þessi sæti í stjórninni. Þannig að áður en þeir kusu var búið að láta þá fá gulrót. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög sár yfir því hvernig þetta fór.“

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Fráfarandi stjórnarformaður LV telur illa að sér og öðrum stjórnarmönnum vegið

Ólafur Reimar Gunnarsson, fráfarandi stjórnarmaður í VR og fráfarandi stjórnarformaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna hefur sagt af sér sem stjórnarmaður í VR eftir að fulltrúaráð VR ákvað að afturkalla umboð stjórnarmanna félagsins í stjórn LV. Hann telur illa vegið sér og öðrum stjórnarmönnum LV með ákvörðun fulltrúaráðs VR.

Segir hækkun lánavaxta til að verja hagsmuni sjóðsfélaga

Starfandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að stjórnin hafi hækkað lánsvexti til að verja lífeyri hundrað og sjötíu þúsund sjóðsfélaga. Annars hefði verið hætta á að þeir greiddu með lánum sjóðsins. Núverandi stjórn starfar fram að næsta fundi þrátt fyrir að yfir helmingur hennar hafi misst umboð sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×