Viðskipti erlent

Vogunarsjóður veðjar á bókabúðir

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Mál og menning hagnaðist um 21 milljón króna árið 2015. Það var besta árið í rekstrinum eftir að nýir hluthafar tóku við keflinu.
Mál og menning hagnaðist um 21 milljón króna árið 2015. Það var besta árið í rekstrinum eftir að nýir hluthafar tóku við keflinu. Vísir/getty
Vogunarsjóður sem þekktur er fyrir að þjarma að þjóðríkjum hefur veðjað á að bókabúðir muni ganga í endurnýjun lífdaga. Hugmyndin er að höfða til þeirra sem kjósa að versla í búð fremur en á netinu.

Það er því áhugavert að rýna í rekstur bókaverslana. Skipta má viðskiptamódeli íslenskra bókabúða á tvo vegu. Annars vegar er um að ræða hreinræktaða bókabúð og hins vegar verslanir sem bjóða auk bóka upp á ritföng, gjafavörur, ferðamannavörur, veitingar og jafnvel fleira.

Elliott Management keypti á dögunum bandarísku bókabúðakeðjuna Barnes & Nobles fyrir jafnvirði 85 milljarða króna með skuldum. En segja má að sú bókabúð hafi verið fyrsta fórnarlamb Amazon. Fyrir rúmlega ári keypti sjóðurinn bresku bókabúðakeðjuna Waterstone sem er ein fárra sem enn standa þar í landi.

Höfðu trú á bókabúðinni

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins og fyrrverandi formaður Félags bókaútgefenda, segir að honum þyki það vera lykilatriði að komið hafi inn nýir eigendur að Waterstone sem hafi haft trú á bókabúðinni. „Á meðan fyrri eigendur virtust hægt og rólega missa trúna á að hægt væri að reka bókaverslanir með sómasamlegum hætti samhliða tilkomu rafbóka. Þær tóku hins vegar ekki yfir markaðinn eins og svartsýnustu menn höfðu spáð.

Nú koma inn fjárfestar sem hafa trú á að hægt sé að reka bókabúð með arðbærum hætti og leggja metnað í úrval og framsetningu bóka fremur en að stóla á annan varning í búðunum.

Fyrir útgefendur skiptir það sköpum því það er erfitt að koma bókum á framfæri. Það skiptir því miklu máli að bjóða þær til sölu í bókabúðum en ekki einvörðungu á útsölumörkuðum eða það sem verra er, að þær séu yfirhöfuð ekki á boðstólum,“ segir hann.

Knúinn til að opna eigin verslun

Forlagið rekur bókabúð á Fiskislóð. „Við gátum ekki boðið til sölu nema lítið brot af úrvali Forlagsins í verslunum. Við sáum okkur því knúin til að opna eigin verslun þar sem lögð er áhersla á úrval bóka. Reynt er að bjóða í bókabúðinni allar bækur allra útgefenda sem til eru á hverjum tíma.

Við höfum alla tíð lagt áherslu á bækur en ekki tekið inn aðrar vörur svo sem ritföng nema í afar litlum mæli. Það er einblínt á vöruúrval og við höldum að það sé það sem fólk sækist eftir í bókabúð. Á meðan bókasala hefur almennt dregist saman hafa tekjur verslunarinnar vaxið um 15-30 prósent á hverju ári í sjö ár,“ segir Egill Örn og nefnir að afkoman hafi verið fín.

Forsvarsmönnum Forlagsins þótti ekki nóg að reka bókabúð á netinu. „Við fundum strax að það var áhugi og þörf fyrir eiginlega verslun. Fólk vill koma í bókabúðir þar sem er úrval og gefa sér góðan tíma til að skoða. Auk þess skiptir þekking og þjónusta starfsfólks verulegu máli. Við höfum aldrei viljað keppa á verðum og tökum ekki þátt í verðstríði fyrir jólin með bækur,“ segir hann.

Það er tiltölulega algengt að bókaútgefendur reki bókabúðir. Í Noregi eiga til dæmis forlög stærstu bókabúðirnar, segir Egill Örn, og rifjar upp að forlagið Mál og menning hafi í áratugi rekið verslun undir sama nafni og Edda útgáfa hafi tekið við keflinu og rekið nokkrar bókaverslanir.

Penninn í víðfeðmum rekstri

Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans Eymundssonar, segir að lykillinn að því að rekstur fyrirtækisins gangi vel sé að hann byggi á nokkrum stoðum en treysti ekki einvörðungu á bóksölu. Jafnvel þótt sú sala hafi gengið vel.

Penninn Eymundsson selur einnig gjafavörur, ferðamannavörur, rekstrarvörur og húsgögn. „Þetta fyrirkomulag tíðkast ekki erlendis. Erlendis væri Penninn Eymundsson alla jafna rekinn sem tvær ólíkar verslanir,“ segir Ingimar. Árið 2017 hagnaðist fyrirtækið um 234 milljónir króna og arðsemi eiginfjár var 29 prósent. Eiginfjárhlutfallið var 44 prósent.

Ingimar segir að ársreikningur ársins 2018 liggi ekki fyrir en afkoman hafi verið í jafnvægi en þó heldur lakari en árið áður. Það megi einkum rekja til kostnaðarhækkana.

„Okkur hefur gengið býsna vel að selja íslenskar bækur á undanförnum árum. Við bjóðum samkeppnishæf verð og tökum allar íslenskar bækur inn til sölu. Það höfum við alltaf gert en ef þær seljast illa er sölunni ekki haldið áfram.“

Ingimar segir að erlend netverslun hafi verið mikil ógn við bækur og tekið mikið til sín. „Það segir sig sjálft. En þessir tveir heimar geta vel lifað saman. Það sjáum á því að salan á rafbókum er hætt að vaxa í Bretlandi og Bandaríkjunum. Það er enda skynsamlegra að fara upp í rúm að með bók en raftæki.“

Líka ritföng og gjafavörur

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Máls og menningar, segir að fyrir 20 árum hafi erlendar bókabúðir einblínt á sölu bóka. Þegar sú sala hafi gefið eftir hafi þær ekki brugðist nógu hratt við breyttu landslagi.

„Mál og menning hefur alltaf boðið líka upp á ritföng og gjafavörur,“ segir hún. „Í kringum aldamótin var anddyrið uppfullt af alls kyns gjafavöru eins og ilmkertum auk tímarita. Bókunum var ekki stillt upp þar. Nú hefur sala tímarita dottið niður og við höfum fært fjölda bóka á jarðhæð enda erum við bókabúð. Ég held það sé nú meira pláss fyrir bækur í búðinni en áður.“

Arndís Björg vekur athygli á að Mál og menning hafi verið í rekstri við Laugaveg í hátt í 60 ár. Önnur hæðin hafi ávallt verið undirlögð íslenskum bókum, fyrir utan eitt borð með erlendum bókum. „Íslendingar kunna að meta að við höfum haldið í hefðina.“

Hún segir að kiljur á íslensku og ensku hafi haldið velli frá því að hún hafi tekið við stjórnartaumunum árið 2011. „Íslendingar eru vel lesnir og vilja oft frekar kaupa bók á ensku í stað þess að fá hana þýdda á íslensku.“ Sala á matreiðslubókum og kaffiborðsbókum hafi dregist saman.

„Íslendingar eru okkar bakland en við bjóðum alla velkomna,“ segir Arndís Björg, lítur yfir salinn og telur að á þeirri stundu sé skiptingin milli ferðamanna og Íslendinga um helmingur. „Ég held að ferðamönnum þyki skemmtilegt að koma inn í bókabúðir. Það er mikið um lundabúðir í miðbænum án þess að ég meini neitt neikvætt með því. Við þurfum á öllum skalanum að halda.“

Arndís Björg segir að afkoman fari eftir sölu og salan hafi verið ágæt. Besta árið hafi verið 2015, það hafi engin aukning verið árið 2016. Það hafi hins vegar verið um tíu prósent samdráttur í sölu í fyrra.

Samkvæmt ársreikningi hagnaðist Mál og menning um 21 milljón árið 2015, arðsemi eiginfjár var 44 prósent og eiginfjárhlutfallið 31 prósent. Árið 2017 nam hagnaðurinn 14 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×