Viðskipti innlent

Þrettán milljarða króna söluhagnaður Hvals

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Kristján Loftsson forstjóri Hvals.
Kristján Loftsson forstjóri Hvals. Fréttablaðið/AntonBrink

Hvalur, sem er að stórum hluta í eigu Kristjáns Loftssonar og fjölskyldu, bókfærði liðlega 13 milljarða króna hagnað af sölu hlutabréfa á síðasta rekstrarári, frá október árið 2017 til september árið 2018, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins, en hagnaðurinn skýrist að mestu af sölu dótturfélagsins Vogunar á þriðjungshlut í HB Granda. Alls hagnaðist Hvalur um 14,1 milljarð króna í fyrra.

Sem kunnugt er seldi Vogun, ásamt Fiskveiðahlutafélaginu Venus sem er í eigu Kristjáns og fjölskyldu, samanlagt 34 prósenta hlut sinn í HB Granda í apríl í fyrra fyrir samtals 21,7 milljarða króna en kaupandinn var Útgerðarfélag Reykjavíkur, áður Brim.

Eigið fé Hvals var 26,5 milljarðar króna í lok septembermánaðar í fyrra, í kjölfar sölunnar í HB Granda, en til samanburðar stóð það í 17,3 milljörðum króna á sama tíma árið 2017.

Eignir félagsins voru ríflega 28,8 milljarðar króna í lok september í fyrra en þar af átti það tæpa 16,8 milljarða króna á bankainnistæðum og 7,8 milljarða króna í hlutabréfum, til að mynda í Arion banka, Hampiðjunni og Origo, að því er fram kemur í ársreikningnum.

Hvalur keypti á rekstrarárinu 3,5 prósenta hlut í sjálfum sér fyrir liðlega 566 milljónir króna en í ársreikningnum er tekið fram að ástæða kaupanna hafi verið óskir tiltekinna hluthafa um að selja hlut sinn. Gengið í viðskiptunum var um 0,6 sinnum bókfært eigið fé félagsins eins og það var í lok september í fyrra.

Beinn eignarhlutur forstjórans Kristjáns Loftssonar í Hval jókst úr 1,2 prósentum í 8,7 prósent á síðasta rekstrarári en á móti minnkaði eignarhlutur stærsta hluthafans, Fiskveiðahlutafélagsins Venusar, sem Kristján er í forsvari fyrir, úr 39,5 prósentum í 32,4 prósent.

Stjórn Hvals leggur til að greiddur verði arður upp á 1,5 milljarða króna til hluthafa í ár, eftir því sem fram kemur í ársreikningnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
BRIM
3,27
21
451.148
EIM
3,11
16
126.639
SIMINN
1,32
11
407.136
VIS
1,23
2
17.490
SKEL
1,12
10
157.458

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
KVIKA
-1,47
11
135.730
ICESEA
-0,7
1
5.247
MAREL
-0,51
7
42.442
ICEAIR
-0,41
7
4.404
ORIGO
0
7
56.197
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.