Skoðun

Að vera elskaður

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
„Engin kona getur kallað sjálfa sig frjálsa þar til hún getur valið hvort hún vill eða vill ekki verða móðir“ sagði hjúkrunarfræðingurinn Margaret Sanger árið 1922. Margaret talaði af reynslu. Hún var ein ellefu systkina sem komust á legg en móðir hennar eignaðist átján börn á 23 árum og dó frá þeim fyrir fimmtugt.

Æska Margaret hafði mikil áhrif á hana og mótaði ævistarf hennar. Orðasambandið takmörkun barneigna (e. birth control) er komið frá henni og hún opnaði fyrstu getnaðarvarnaklíník Bandaríkjanna í New York árið 1916, sem var reyndar lokað skömmu síðar og hún ákærð fyrir að fræða konur um hvernig börn verða til. Margaret gafst ekki upp. Hún stofnaði alþjóðasamtök um skipulagðar barneignir og átti stóran þátt í þróun getnaðarvarnapillunnar á sjötta áratugnum.

Áhrifavaldar eins og Margaret greiða slóð mannréttinda. Ef kona telur sig ekki færa um að ala barn þá er ekki annarra að ákveða hið gagnstæða. Sama hvað fólki finnst þá halda konur áfram að fara í þungunarrof hvort sem það er bannað eða ekki. Það er hins vegar undir lögunum komið hvort það sé gert við aðstæður sem eru farsælastar fyrir konuna. Við vitum að enn í dag eru þungunarrof gerð í bakhúsum, við óhreinar aðstæður og jafnvel framkvæmdar af óhæfum aðila sem leiðir oft til alvarlegra fylgikvilla eða dauða.

Það er súrrealískt að á sama tíma og okkar þingmenn sýna í verki að þeir standa með kvenfrelsi horfum við á bylgju afturfara í mörgum fylkjum Bandaríkjanna þar sem konur geta ekki endað þungun án þess að það leiði til sakamáls. En ekki fylgir sögunni hver ætlar að hugsa um barnið sem móðirin vill ekki ala? Er betra að fæðast og vera ekki elskaður?




Skoðun

Sjá meira


×