Viðskipti innlent

Icelandair flutti farþega með Bombardier til Manchester

Birgir Olgeirsson skrifar
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir Icelandair ekki hafa skipulagt fleiri ferðir með þessum vélum eins og er.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir Icelandair ekki hafa skipulagt fleiri ferðir með þessum vélum eins og er. Vísir
Icelandair greip til þess ráðs að fljúga með farþega á milli Keflavíkur og Manchester í gær og í dag á Bombardier Q400 flugvél. Er það gert til að mæta þeim vanda sem skapast hefur vegna kyrrsetningar Boeing MAX-vélanna en Icelandair hefur einnig nýtt þessar vélar til að fljúga á milli Keflavíkur og Bergen í Noregi í maí.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir Icelandair ekki hafa skipulagt fleiri ferðir með þessum vélum eins og er.

„Það kemur hins vegar alveg til greina að nýta þær frekar ef á þarf að halda,“ segir Ásdís.

Hún segir enn óljóst hvenær kyrrsetningu MAX-vélanna verður aflétt. Forsvarsmenn flugmálayfirvalda víða um heim munu koma saman í Texas á morgun og ræða málefni Boeing.

Rætt var við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, um flugrekstur flugfélagsins fyrr í mánuðinum í kvöldfréttum Stöðvar 2 en þar sagði hann að ekki væru áform um að nýta Bombardier flugvélar til sóknar á nýja markaði erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×