Viðskipti innlent

Kvika á leið í Höfðatorgsturninn 

Hörður Ægisson skrifar
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.
Öll starfsemi Kviku banka á Íslandi, sem er nú til húsa í Borgartúni 25, mun flytjast yfir í Höfðatorgs­turninn á næstu mánuðum. Samkvæmt heimildum Markaðarins er bankinn að ganga frá endanlegu samkomulagi við Regin fasteignafélag, sem er eigandi turnsins, og til stendur að starfsemi Kviku verði þá á þremur hæðum – 7., 8. og hluta af 9. hæð – í Höfðatorgsturninum við Katrínartún.

Samtals starfa nú um 130 manns í fjárfestingabankanum en Kvika sameinaðist sem kunnugt er GAMMA Capital Management fyrr á þessu ári. Samkvæmt heimildum Markaðarins er jafnframt áformað að selja fasteignina að Garðastræti 37, þar sem höfuðstöðvar GAMMA hafa verið til húsa, en húsnæðið er um 680 fermetrar að stærð.

Í afkomutilkynningu sem bankinn sendi frá sér síðastliðinn mánudag kom fram að hagnaður fyrir skatta hefði numið 852 milljónum króna og var arðsemi eigin fjár rúmlega 22 prósent. Bankinn hefur uppfært afkomuspá sína fyrir árið 2019 um meira en þriðjung og er nú gert ráð fyrir því að hagnaður ársins verði um 2,7 milljarðar króna.

Kvika banki, sem er með eignir í stýringu að fjárhæð um 442 milljarða króna, var skráður á aðallista Kauphallarinnar í marsmánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×