Viðskipti innlent

Vill skipta ábata hagræðingar milli starfsmanna og félagsins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í viðtali eftir fjárfestafundinn í morgun þar sem uppgjörið var kynnt.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í viðtali eftir fjárfestafundinn í morgun þar sem uppgjörið var kynnt. Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Forstjóri Icelandair segir afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi ekki ásættanlega. Launakostnaður sé hár og leita verði tækifæra til hagræðingar, þar sem ábata yrði skipt milli starfsmanna og félagsins. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar. 

Ráðamenn Icelandair ræddu afkomuna á fundi með fjárfestum á Loftleiðahótelinu í morgun en félagið tapaði 6,7 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða sem nemur 74 milljónum króna á dag. Bogi Nils Bogason forstjóri segir að fyrsti fjórðungur ársins sé yfirleitt í tapi hjá Icelandair og mörgum öðrum flugfélögum en aðrir fjórðungar séu sterkari. 

„Uppgjörið var í takt við væntingar. En við vorum ekki ánægðir með uppgjörið. Það er ekki ásættanlegt og við viljum og þurfum að gera miklu betur og þar verðum við að horfa á alla kostnaðarliði,“ sagði Bogi og var sérstaklega spurður um launakostnað. 

„Eins og uppgjörið ber með sér þá er launakostnaður í rauninni hár hjá félaginu og þar verðum við að vinna í hlutunum og vinna með okkar starfsfólki.“

-Þýðir það að þið munið hreinlega fara fram á launalækkanir í kjarasamningum? 

„Ég held að það sé ekki málið. Tækifærin sem við horfum í rauninni á er að finna tækifæri til hagræðingar sem við getum skipt á milli starfsmanna og félagsins. Það er svona það sem við erum að vinna að,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.


Tengdar fréttir

Icelandair hefur rætt við Boeing um skaðabætur

Icelandair hefur rætt við Boeing um skaðabætur vegna stýrikerfisgalla í Boeing 737 MAX 8. Flugfélagið hefur keypt níu slíkar þotur frá Boeing en þær eru kyrrsettar sem stendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×