Viðskipti innlent

Icelandair hefur rætt við Boeing um skaðabætur

Sylvía Hall skrifar
Ekki er staðfest hvenær Boeing 737 vélarnar verða teknar aftur í notkun en miðað er við að þær verði teknar í notkun 16. júní.
Ekki er staðfest hvenær Boeing 737 vélarnar verða teknar aftur í notkun en miðað er við að þær verði teknar í notkun 16. júní. Vísir/Vilhelm
Icelandair hefur rætt við Boeing um skaðabætur vegna tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna stýrikerfisgalla í Boeing 737 MAX 8 en ekki hefur verið höfðað formlegt skaðabótamál. Flugfélagið hefur keypt níu slíkar þotur frá Boeing en þær eru kyrrsettar sem stendur.

Í samtali fréttastofu við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, segir Bogi að félagið hafi rætt við Boeing um áætlanir þeirra um að sækja skaðabætur vegna gallans og þess tjóns sem félagið varð fyrir vegna kyrrsetningar vélanna en þegar allar þotur af gerðinni 737 MAX 8 voru kyrrsettar hafði Icelandair tekið við þremur slíkum þotum og átti von á sex til viðbótar.

Aðspurður segir Bogi að vel sé haldið utan um það hvert ætlað tjón sé en hann geti ekki tjáð sig um þær fjárhæðir á þessu stigi.

Þoturnar voru kyrrsettar eftir að tvær vélar af sömu gerð fórust með aðeins fimm mánaða millibili, fyrst vél Lion Air í Indónesíu í október í fyrra og síðar vél Ethiopian Airlines í mars. Alls fórust 346 manns í slysunum.

Bogi Nils segir Icelandair vera búið að stilla leiðakerfið af miðað við að MAX-vélarnar verði aftur teknar í notkun þann 16. júní en gangi það ekki eftir er félagið í sambandi bæði við Boeing og flugmálayfirvöld svo hægt verði að bregðast við ef breyta þurfi forsendum. Það geti brugðið til beggja vona en ekki liggur fyrir hversu lengi MAX-vélarnar verða kyrrsettar.


Tengdar fréttir

Mikill fjöldi flugmanna Icelandair í óvæntu vorfríi

Fjöldi flugmanna Icelandair hefur verið aðgerðarlaus síðan flugfélagið tók þá ákvörðun að kyrrsetja allar Being 737 MAX 8 flugvélar sínar þann 12. mars. Ekkert liggur fyrir um hvenær vélarnar verða teknar aftur í notkun.

Óljóst hvernig Boeing hyggst bæta tjónið

Sérfræðingar telja líklegt að framleiðandinn þurfi að greiða mismuninn á rekstrarkostnaði vegna flugvéla og leigu á nýjum eftir kyrrsetningu 737 MAX 8.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×