Viðskipti erlent

Galaxy Fold fær misgóðar viðtökur

Samúel Karl Ólason skrifar
Í einhverjum tilfellum biluðu skjáir símanna og virðist sem það hafi gerst eftir að notendur þeirra fjarlægðu filmu, sem leit út eins og plastfilma sem fylgir flestum nýjum símum og raftækjum með skjái.
Í einhverjum tilfellum biluðu skjáir símanna og virðist sem það hafi gerst eftir að notendur þeirra fjarlægðu filmu, sem leit út eins og plastfilma sem fylgir flestum nýjum símum og raftækjum með skjái. Getty/Bloomberg
Tæknirisinn Samsung hefur veitt blaðamönnum takmarkaðan aðgang að nýjasta síma þeirra, Galaxy Fold, síðustu daga og hafa þeir haft símann til skoðunar. Það er óhætt að segja að síminn fái misgóðar viðtökur og hafa nokkur tæki af þeim fáu sem voru send út brotnað eða bilað. Blaðamennirnir eru þó flestir sammála um að samanbrjótanlegir símar séu framtíðin.

Síminn sem um ræðir mun kosta um tvö þúsund dali og flestum þykir það mjög mikið, eðlilega. Ekki liggur fyrir hve mikið síminn mun kosta hér á Íslandi. Áætlað er að síminn verði kominn í verslanir um allan heim þann 3. maí. Fregnir hafa þó borist af því að búið sé að fresta sérstökum viðburðum Samsung í Hong Kong og Shanghai, sem áttu að fara fram á þriðjudaginn. Þær fregnir hafa þó ekki verið staðfestar enn.

Í einhverjum tilfellum biluðu skjáir símanna og virðist sem það hafi gerst eftir að notendur þeirra fjarlægðu filmu, sem leit út eins og plastfilma sem fylgir flestum nýjum símum og raftækjum með skjái. Svo er þó ekki, því Samsung segir þessa filmu vera hluta af símanum.

Það útskýrir þó ekki allar bilanirnar þar sem blaðamaður CNBC fjarlægði ekki umrædda filmu en skjár símans bilaði samt. Öðruvísi þó. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja virðist sem að um fjórðungur þeirra síma sem hafi verið sendir til blaðamanna hafi bilað. Það er þó ljóst að í einhverjum tilfellum virðist sem að blaðamennirnir sjálfir hafi skemmt þá. Óvart.

Samsung segir þó að allar þessar bilanir verði skoðaðar gaumgæfilega. Ýmsir blaðamenn vara þó notendur við því að kaupa símana fyrr en tryggt sé að ef um galla sé að ræða, búið sé að laga þá.

Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir hvað blaðamenn höfðu um Galaxy Fold að segja.

Blaðamaður TechCrunch hefur ekki birt umfjöllun sína en hann heldur dagbók um sig og símann. Hann segir að það verði ekki erfitt að gefa símann frá sér en er sannfærður um að þróun samanbrjótanlegra síma muni halda áfram. Þeir eigi þó tvær þrjár kynslóðir eftir þar til þeir verði almennilegir.

Síminn hans bilaði ekki og bendir hann á að bilanir sem þessar hafi gerst af og til með tæki sem blaðamenn fá í hendurnar. Honum þykir Samsung þó hafa staðið sig vel varðandi hönnun símanns og byggingu hans.

Skrítin umfjöllun

„Þetta verður skrítin umfjöllun,“ segir í upphafi umfjöllunar Verge. Þar tekur blaðamaðurinn fram að enginn eigi að kaupa Galaxy Fold fyrr en búið er að tryggja að mögulegir gallar hafi verið lagaðir. Hann tók þó þá ákvörðun að skrifa umfjöllun sína eins og Samsung væri búið að gera það.

Hann segir að þrátt fyrir það að hann sjái ýmislegt tækinu til foráttu líki honum einstaklega vel við það.

Það er mikill galli samkvæmt blaðamanni Verge að það sé augljóst hvar skjárinn fellur saman og hægt sé að finna fyrir því með fingrunum. Hann hafi þó vanist því fljótt.

Þá sé það einnig mikill galli að það hafi einstaklega fljótt séð á skjánum, þar sem hann sé úr plasti.

Frábær sýn í framtíðina, þar til síminn dó

Blaðamaður CNBC segist hafa séð framtíðina í Galaxy Fold. Í tvo daga, allavega, því síminn bilaði. Hann segir ljóst að síminn sé ekki tilbúinn til notkunar vegna þessa. Þrátt fyrir það er hann viss um að samanbrjótanlegir skjáir verði komin á fjölda tækja eftir nokkur ár.

Honum leist mjög vel á stóra skjá símans í fyrstu en ekki þann litla, sem er framan á símanum og notendur hafa aðgang að þegar síminn er lokaður. Hann nefnir einnig miðju skjásins og segir hana hafa verið sýnilega en þó sérstaklega þegar horft er á skjáinn frá hlið. Það hafi ekki komið að sök þegar hann var að horfa á kvikmyndir eða lesa bækur.



Hefur áhyggjur af líftíma

Blaðamaður Engadget hefur áhyggjur af því að síminn muni virka til langs tíma, þar sem skjárinn sé úr plasti. Hann segir einnig frá því að blaðamennirnir sem fengu eintak hafi fengið skipanir um að þeim var alfarið meinað að prófa að missa símana í gólfið eða prófa hvernig þeir standast högg.

Hann segir ljóst að Galaxy Fold sé mikilvæg nýjung og í rauninni stórmerkilegur sími. Hann eigi þó erfitt með að mæla með símanum og sérstaklega með tilliti til þess að hann kosti um tvö þúsund dali.

Hér má sjá umfjöllun Engadget.

Féll kylliflatur

Blaðamaður T3 féll kylliflatur fyrir Galaxy Fold þó síminn sé ekki gallalaus. Hann segir að ekki sé um einhverskonar tilraun að ræða, heldur trúi hann því að síminn muni gerbreyta þróun farsíma. Síminn sé ótrúlega góður miðað við að um fyrsta samanbrjótanlega símann sé að ræða.

Það sé gott að horfa á myndbönd, lesa bækur og spila leiki í símanum og það sé sérstaklega jákvætt að geta borið litla spjaldtölvu í vasanum.

Hann segir það þó slæmt að síminn sé stór og klunnalegur þegar hann er lokaður og að ekki megi finna innstungu fyrir heyrnartól á honum. Eins og aðrir segir hann einnig að síminn sé dýr.



Finnst síminn sterkbyggður

Blaðamaður TechRadar segir Galaxy Fold vera mest spennandi síma ársins. Í stuttu máli sagt er hann jákvæður í garð símans. Hann bendir þó á miðju skjásins, eins og aðrir, og það að margir símar virðist hafa bilað.

Honum finnst síminn vera sterkbyggður og vísar til þess að samkvæmt Samsung eigi hann að standast rúmlega 200 þúsund opnanir og lokarnir, sem samvarar því að kíkja á stóra skjáinn hundrað sinnum á dag í fimm ár. Hann vísar einnig til þess að síminn sé klunnalega stór þegar hann er lokaður og Galaxy Fold sé einn þyngsti síminn á markaði í dag.

Síminn er 269 grömm að þyngd. Til samanburðar þá er Galaxy S10 Plus 175 grömm og iPhone XS Max er 208 grömm.

Blaðamaðurinn segir símann einstaklega viðkvæman fyrir fingraförum og hann hafi sífellt verið að þurrka af honum.

Í samantekt sinni segir hann að Galaxy Fold og Mate X, samanbrjótanlegur sími Huawei, séu að opna á nýja þróun síma sem muni taka stakkaskiptum á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×