Lífið

Hefur barist við þunglyndi í nokkur ár: „Trúði að ég væri bólugrafin, feit og léleg leikkona“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Turner leikur Sansa Stark í þáttaröðinni vinsælu Game of Thrones.
Turner leikur Sansa Stark í þáttaröðinni vinsælu Game of Thrones. Dr. Phil

Game of Thrones stjarnan Sophie Turner mætti í spjall til Dr. Phil á dögunum og tjáði sig þar um þunglyndi sem hún hefur glímt við í sex ár.

Flestallir þekkja Dr. Phil en sálfræðingurinn hefur í áraraðir haldið úti samnefndum sjónvarpsþáttum. Turner mætti aftur á móti í hlaðvarpsviðtal til hans. Turner er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Sansa Stark í Game of Thrones.

„Ég hef verið að glíma við þunglyndi í fimm til sex ár. Mín helsta áskorun er í raun að koma mér upp úr rúminu og að fara út í lífið,“ segir Turner sem er í dag 22 ára.

„Ég fór að finna vel fyrir þessu þegar ég var um sautján ára. Vinir mínir voru allir að fara í háskóla og ég var alltaf að vinna en á sama tíma bjó ég heima hjá foreldrum mínum. Ég var í raun mjög einmana. Þetta byrjaði samt sem áður í raun þegar ég komst á kynþroskaaldurinn og fór að þyngjast. Svo fóru samfélagsmiðlarnir ekki vel í mig. Þú sérð tíu jákvæðar athugasemdir um þig og þú hunsar það en ein neikvæð athugasemd getur farið alveg með mann.“

Turner segir að athugasemdir um að hún hafi bætt á sig hafi sært hana mikið.

„Þetta voru athugasemdir í tengslum við þyngd mína og svo var ég með slæma húð því ég var í raun bara unglingur. Svo sögðu sumir að ég væri ekki góð leikkona. Þetta var erfitt og ég trúði að ég væri bólugrafin, feit og léleg leikkona,“ segir Turner og hafði þetta mikil áhrif á hana á setti í Game Of Thrones.

Hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.

Þáttaröðin Game of Thrones er sýnd á Stöð 2 en fjallað var ítarlega um annan þáttinn á Vísi í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.