Viðskipti erlent

Forstjóri Boeing: 737 MAX verði ein öruggasta flugvél í heimi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Dennis Mulienberg stígur úr pontu á aðalfundi Boeing í Chicago í dag.
Dennis Mulienberg stígur úr pontu á aðalfundi Boeing í Chicago í dag. Getty/Pool

Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing, heitir því að ný útgáfa 737 MAX-flugvélanna verði meðal öruggustu farartækja háloftanna. Þá segir hann að enn sé unnið að hugbúnaðaruppfærslu og nýjum þjálfunarleiðbeiningum fyrir flugmennina sem munu koma til með að fljúga 737 MAX-þotunum, fari svo að kyrrsetningu þeirra verði aflétt.

Forstjóri Boeing ávarpaði blaðamenn á aðalfundi fyrirtækisins í Chicago í dag en þetta er fyrsti blaðamannafundur hans frá því að víðtæka flugbannið var sett á um miðjan mars. Á fundinum lagði Muilenburg ríka áherslu á öryggi, sem hann sagði miðlægt í allri starfsemi Boeing. 

Fréttir sem gáfu til kynna að framleiðsla Boeing á 737 MAX hafi verið hroðvirknisleg, sökum þess að fyrirtækið vildi koma vélunum sem fyrst á markað, væru því alrangar að sögn forstjórans. „Þær eru ekki sannar. Þetta var sex ára þróunarferli, vélinni var reynsluflogið 1600 sinnum,“ sagði Muilenburg. Framleiðsluferlið hafi því verið „ítarlegt og agað.“

Auk þess væri ekkert hæft í því að öryggisbúnaður í 737 MAX hafi verið seldur aukalega að sögn Mulienburg. „Öryggisbúnaður er ekki aukahlutur.“

Hann baðst einnig afsökunar, fyrir hönd Boeing, á mannskæðu flugslysunum tveimur í Indónesíu og Eþíópíu. Slysin hefðu tekið mjög á starfsmenn fyrirtækisins og vottaði hann öllum aðstandendum hinna látnu samúð.

Muilenburg sagði auk þess að verkfræðingar Boeing hafi allt frá slysinu í Eþíópíu unnið náið með bandarískum flugstjóraryfirvöldum og viðskiptavinum fyrirtækisins að uppfærslu sem kemur í veg fyrir ofrisið, sem talið er að hafi valdið báðum slysunum.

Alls sé búið að gera 146 tilraunir á nýja hugbúnaðinum og segir forstjórinn að hann hafi gefið góða raun allar 246 klukkustundirnar sem prófanirnar stóðu yfir. Af þeim 50 flugfélögum sem keyptu 737 MAX-þotu hafa um 90 prósent þeirra nú þegar prófað hugbúnaðinn, að sögn Muilenburg.

„Eftir að búið er að samþykkja og innleiða nýja hugbúnaðinn verður 737 MAX ein öruggasta flugvél sem hægt er að fljúga.“

Stóð af sér vantraust

Forstjórinn segir að Boeing muni einnig leggja allt sitt kapp á að öðlast aftur traust almennings. Einn af liðunum í því er að uppfæra og endurbæta þjálfunarleiðbeiningar fyrir flugmennina sem munu koma til með að fljúga Boeing-vélunum. Hann minnti auk þess á að á hverjum degi er áætlað að rúmlega 5 milljón farþegar ferðist með Boeing-vél. Að meðaltali lendi eða taki 737-þota á loft á 1,5 sekúndna fresti á flugvöllum heimsins.

Aðspurður um hvort hann hafi íhugað að segja af sér vegna alls sem á undan er gengið sagðist Muilenburg vilja starfa áfram hjá Boeing. Það væri einbeittur vilji hans að stýra fyrirtækinu með öryggi, gæði og heilindi að leiðarljósi.

Hluthafar í Boeing höfðu áður greitt atkvæði um það hvort setja ætti Muilenberg af sem forstjóra, en tillagan var felld með rúmlega 60 prósent atkvæða.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIM
2,64
22
261.354
ICEAIR
1,56
9
81.326
REGINN
1,4
16
446.712
EIK
1
14
287.832
LEQ
1
2
1.000

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
VIS
-3,16
10
134.290
SJOVA
-2,45
5
162.100
MAREL
-1,97
18
936.827
SIMINN
-1,66
6
156.170
FESTI
-1,5
6
255.290
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.