Viðskipti innlent

Greiða fyrir kínverskum greiðslum í Leifsstöð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lagardère Travel Retail
Veitingafyrirtækið Lagardère Travel Retail á Íslandi, sem á og rekur veitinga- og kaffistaði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og fyrirtækið Central Pay hafa komist að samkomulagi um notkun á Alipay og WeChat Pay í flugstöðinni.

Um er að ræða farsímagreiðslulausnir sem njóta mikilla vinsælda í Kína. Áætlað er að um 700 milljón Kínverjar notfæri sér Alipay og að um milljarður manna skrái sig reglulega inn á WeChat. Að sama skapi er því talið að greiðslur í gegnum þessa miðla nema um 94 prósent allra farsímagreiðslna í Kína.

Þannig má ætla að vertar í flugstöðinni reyni með innleiðingu þessara lausna að koma til móts við þá kínversku ferðamenn sem hafa viðkomu í húsinu. Þeir voru um 90 þúsund talsins í fyrra en áætlað er að þeir verði 110 þúsund í ár.

Haft er eftir Sigurði Skagfjörð Sigurðssyni, framkvæmdastjóra hjá Lagardère Travel Retail, í tilkynningu að snertilausar greiðslur séu orðinn aðalgreiðslumátinn hjá þessum farþegahópi.

„Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að geta boðið upp á viðskiptahætti sem þeir þekkja, til að geta tryggt fljót og hnökralaus viðskipti. Flugvellir eru oft fyrsti viðkomustaður ferðamanna um landið okkar og það er mikilvægt að geta sýnt þeim að við getum komið til móts við þarfir þeirra, sama hvaðan þeir koma,” segir Sigurður.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×