Skoðun

Iðnaður er undirstaða

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar
Við sem stöndum í fylkingarbrjósti á vinnumarkaði vitum að leysa verður úr kjaradeilunni. Atvinnurekendur vilja að sjálfsögðu geta greitt starfsfólki sínu góð laun og öll viljum við að fólk geti lifað góðu lífi á Íslandi. Við sitjum líka í sömu súpunni, Íslendingar, sama hvað á dynur. Það er sameiginlegt verkefni okkar, launþega og atvinnurekenda, að sjá til þess að hér sé heilbrigt og gott atvinnulíf með tilheyrandi störfum og verðmætasköpun. Fyrir því eigum við að tala en því miður gleymist þetta oft. Þetta skiptir máli því nóg er af úrtöluröddum þeirra sem vilja ala á sundurlyndi.

Á þeim tíma sem Samtök iðnaðarins voru stofnuð fyrir 25 árum var takmarkaður skilningur á mikilvægi iðnaðarins. Einhæfni atvinnulífsins var sláandi. Margir litu svo á að Ísland væri óáhugavert til fjárfestinga, við vorum land lítillar framleiðni og samkeppnishæfnin var döpur. Öll árin frá stofnun hafa samtökin sett á oddinn að berjast fyrir bættri framleiðni og aukinni samkeppnishæfni.

Nú eru Samtök iðnaðarins stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi. Rödd iðnaðar er skýr og innan samtakanna er unnið mikið og gott starf. Á síðasta starfsári samtakanna hafa sigrar unnist á sviði menntunar, nýsköpunar, innviða og starfsumhverfis sem vert er að fagna og hafa samtökin lagt sín lóð á vogarskálarnar til að efla samkeppnishæfni landsins. Samstöðumátturinn skilar sér. Skýr sýn, fumlaus framkvæmd og markviss eftirfylgni leiðir til raunverulegra umbóta og leggur grunn að auknum lífsgæðum. Með því að halda áfram á þeirri braut eykst verðmætasköpun og meira verður þar af leiðandi til skiptanna. Þannig verður Ísland eftirsótt til búsetu og atvinnurekstrar.




Skoðun

Sjá meira


×