Körfubolti

Darri: Ég hef bara aldrei séð svona tölfræði áður

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Darri var glaður í kvöld.
Darri var glaður í kvöld. vísir/bára
„Við bara framkvæmdum betur á hálfum velli og það skóp sigurinn í dag,“ sagði Darri Freyr Atlason þjálfari Vals að leik loknum í Origo-höllinni í kvöld.

Valur vann KR í undanúrslitum Dominos-deildar kvenna eftir æsispennandi leik þar sem gestirnir úr Vesturbænum skoruðu ekki stig seinustu sjö mínútur leiksins.

„Þetta var svona leikur sem að vannst á lokametrunum. Við náðum að vera aðeins sterkari í dag, hörkuleikur,“ sagði Darri Freyr sáttur.

Gestirnir leiddu með einu stigi í hálfleik en Darri Freyr hafði ekki miklar áhyggjur af því.

„Við töpuðum ekki nema 5 boltum í fyrri hálfleik. Lifum alveg með því. Þetta var bara hörkuleikur í hálfleik. Við töluðum um að við þurftum að halda áfram að spila og kreista út sigur,“ sagði hann og var alveg sama hvernig Valur ynni leikina, bara að þeir ynnust.

Leikplanið gekk vel í kvöld að sögn Darra Freys og Valur var að fá það sem að þær lögðu upp með. Hann benti þó á að sínar stelpur hefðu sótt mikið inn í teig en fengið fá vítaskot í leiknum.

„Ég hef bara aldrei séð svona tölfræði áður,“ sagði hann en vildi að öðru leyti lítið tjá sig um dómgæslu kvöldsins.

Þá hefur Valur unnið fyrsta leikinn en þeim hafði verið spáð 3-0 sigri í seríunni. Darri Freyr bendir þó á að einbeitingin verði að vera til staðar.

„Við þurfum að mæta tilbúnar í hvern einasta leik. Berum mikla virðingu fyrir þessu KR liði og þeirra þjálfara og við verðum að vera á tánum,“ sagði hann en ljóst er að þetta verður hörkusería ef að bæði lið halda áfram að spila svona.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×