Viðskipti innlent

Kjartan Hreinn hættir á Fréttablaðinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kjartan Hreinn Njálsson hefur ekki aðeins vakið athygli fyrir vaska framgöngu í sjónvarpi heldur jafnframt fyrir einlægan áhuga á öllu vísindatengdu, sem hefur kristallast í skrifum hans í Fréttablaðinu á undanförnum árum. Hér er hann t.a.m. með þrívíddarskönnun af sjálfum sér.
Kjartan Hreinn Njálsson hefur ekki aðeins vakið athygli fyrir vaska framgöngu í sjónvarpi heldur jafnframt fyrir einlægan áhuga á öllu vísindatengdu, sem hefur kristallast í skrifum hans í Fréttablaðinu á undanförnum árum. Hér er hann t.a.m. með þrívíddarskönnun af sjálfum sér. FBL/Stefán.
Fréttablaðið verður af ritstjóra innan tíðar þegar Kjartan Hreinn Njálsson hefur störf á nýjum vettvangi.

Kjartan hóf fjölmiðlaferil sinn á Vísi fyrir um sjö árum. Þaðan lá leið hans í sjónvarpsfréttir Stöðvar 2 áður en hann tók svo við stöðu aðstoðarritstjóra hjá Fréttablaðinu sumarið 2017. Hann hefur síðan gegnt stöðu ritstjóra samhliða Ólöfu Skaftadóttur frá því í fyrrasumar.

„Ég hef því eiginlega verið að vinna mig frá þessum „nýju og spennandi miðlum“ yfir á þá „gömlu og deyjandi,“ segir Kjartan Hreinn og hlær.

Nú sé hins vegar komið að nýjum kafla á ferlinum. Hann segist einfaldlega hafa litið svo á að nú væri kjörið tækifæri til að róa á ný mið - þó svo að nákvæmur áfangastaður liggi ekki fyrir. Hann kveðji gamla vinnustaðinn sinn í fullkominni sátt og kann honum bestu þakkir fyrir samfylgdina á undanförnum árum.

Kjartan er þó ekki algjörlega viss hvenær hann lýkur formlega störfum fyrir Fréttablaðið. Hann áætlar hins vegar að það verði einhvern tímann í sumarbyrjun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×