Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Fram 23-28 | Framarar fjærlægðust botnsvæðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Gauti var markahæstur í liði Fram með níu mörk.
Þorsteinn Gauti var markahæstur í liði Fram með níu mörk. vísir/bára
Fram fjarlægðist botnsvæði Olís-deildar karla með sigri á ÍR, 23-28, í Austurberginu í kvöld. Framarar léku einn sinn besta leik í vetur og sigur þeirra var aldrei í hættu.

Leikplan Guðmundar Helga Pálssonar, þjálfara Fram, gekk fullkomlega upp og hans menn spiluðu vel á báðum endum vallarins. Vörnin var traust með Ægi Hrafn Jónsson sem besta mann og fyrir aftan hana átti Viktor Gísli Hallgrímsson góðan leik.

ÍR-ingar voru aftur á móti slakir og það er hálf ótrúlegt hversu illa þetta annars vel mannaða lið spilar oft.

Fram var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 12-16, og skoraði svo fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og náði sex marka forystu.

Fram komst sjö mörkum yfir, 14-21, en ÍR svaraði með þremur mörkum í röð. Áhlaupið entist ekki lengi og gestirnir úr Safamýrinni sigu aftur fram úr. Á endanum munaði fimm mörkum á liðunum, 23-28.

Fram er í 10. sæti deildarinnar með 13 stig, einu stigi á eftir ÍR sem er í 9. sætinu. Bæði lið stefna á að komast í úrslitakeppnina og hafa þrjá leiki til að ná því.

Af hverju vann Fram?

Framarar sýndu á sér sparihliðarnar í kvöld. Vörnin var gríðarlega sterk strax í upphafi leiks og dró vígtennurnar úr ÍR-ingum. Viktor Gísli varði vel á meðan markverðir ÍR voru heillum horfnir í fyrri hálfleik. Stephen Nielsen vaknaði um miðbik seinni hálfleiks en það var of seint.

Sóknarleikur Fram gekk smurt og allir leikmennirnir í útilínunni voru ógnandi. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, Þorgrímur Smári Ólafsson og Aron Gauti Óskarsson skoruðu samtals 19 mörk og voru með fína skotnýtingu.

Á meðan skiptust vörn Fram og Viktor Gísli á að verja skot ÍR sem átti sér aldrei viðreisnar von í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Viktor Gísli varði 16 skot í marki Fram, þar af fjögur víti. Ægir Hrafn og Sigurður Örn Þorsteinsson voru frábærir í miðri vörn gestanna og vörðu samtals níu skot í hávörn, jafn mörg og markverðir ÍR til samans í leiknum.

Þorsteinn Gauti tók af skarið í sókninni og var alltaf ógnandi, Þorgrímur Smári stýrði leiknum vel og Aron Gauti átti góðan leik í stöðu hægri skyttu. Þorgeir Bjarki Davíðsson lék vel í hægra horninu sem og Valdimar Sigurðsson á línunni.

Hvað gekk illa?

Allt hjá ÍR. Fram er ekki með besta sóknarlið deildarinnar en leit út fyrir það á löngum köflum í kvöld. Markverðir Breiðhyltinga vörðu lítið og sóknin var slök. Ekki hjálpaði til að liðið klúðraði fjórum vítum.

Sveinn Andri Sveinsson reyndi og reyndi en ekki með neinum árangri. Framvörnin réði ágætlega við árásarnir hans og ekki ógnar hann með skotum utan af velli. Þá kom ekkert út úr hægri skyttunum, Bergvin Þór Gíslason var með hræðilega skotnýtingu og línuspilið var bágborið.

Hvað gerist næst?

ÍR fer á Seltjarnarnesið í næstu umferð og mætir þar botnliði Gróttu. Fram á öllu erfiðari leik fyrir höndum; gegn Selfossi í Safamýrinni.

Aðeins þrjár umferðir eru eftir og liðin keppast við KA um síðasta lausa sætið í úrslitakeppninni.

Guðmundur Helgi: Sagði að við þyrftum að verja tíu skot í vörninni

„Þetta var algjörlega frábært. Við vissum að það yrði erfitt að koma í Austurbergið og berjast við ÍR-inga,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir leikinn.

Fram spilaði gríðarlega öfluga vörn og t.a.m. vörðu leikmenn liðsins tíu skot í leiknum, fleiri en markverðir ÍR.

„Við lögðum upp með að verja skot í vörninni. Fyrir leik sagði ég að við þyrftum að verja tíu skot og það gekk eftir. Það gekk upp og við fengum góða markvörslu. Við fórum vel yfir skotin þeirra og það skilaði sér,“ sagði Guðmundur Helgi.

Hann var ánægður með hversu margir lögðu í púkkið í sókninni.

„Allir skiluðu sínu og það hefur stundum vantað. Núna voru allir með og við fengum framlag úr öllum áttum,“ sagði Guðmundur Helgi.

Framarar horfa upp fyrir sig og setja stefnuna á úrslitakeppnina.

„Við ætlum okkur í 8-liða úrslit og stefnum þangað. Það eru þrír leikir eftir og það er allt opið. Það er allt hægt og ég reyni að koma því inn í hausinn á mönnum,“ sagði Guðmundur Helgi.

Bjarni: Skrifast á mig

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var afar ósáttur með frammistöðu sinna manna gegn Fram í kvöld. Framarar unnu leikinn með fimm marka mun, 23-28.

„Þetta var ógeðslega lélegt hjá okkur,“ sagði Bjarni og dró ekkert undan.

„Við spiluðum hræðilega vörn í byrjun, brutum ekki, vorum slitnir í sundur og óöruggir. Þar af leiðandi var markvarslan engin. Svo datt þetta ekki fyrir okkur í sókninni. Viktor [Gísli Hallgrímsson] stóð sig vel í markinu hjá Fram,“ sagði Bjarni.

„Svo fórum við mikið beint á Ægi [Hrafn Jónsson] og hann varði fullt af skotum í vörninni. Þetta gerðum við í staðinn fyrir að gefa okkur tíma. Þegar við gerðum það sköpuðum við okkur færi, sérstaklega í fyrri hálfleik.“

Bjarni segir að hann beri mikla ábyrgð sem þjálfari liðsins.

„Mér fannst Fram vera miklu betra. Við prófuðum alls konar hluti en vorum ekki tilbúnir og áttum ekki möguleika. Það skrifast á mig. Ég stýri skútunni og þarf að skoða þetta og leysa. Við getum ekki dvalið lengi við þetta. Við þurfum að mæta klárir í næsta leik og muna að það eru bara tvær vikur síðan við vorum að spila frábærlega,“ sagði Bjarni og bætti við: „Ég hef áhyggjur af því hversu hrikalega lélegir við höfum verið eftir bikarhelgina.“

Eftir úrslit kvöldsins er ÍR komið niður í 9. sæti deildarinnar, einu sæti frá úrslitakeppninni þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.

„Ef maður spilar þokkalega vel líður manni ekki eins illa þegar maður tapar. Stundum falla hlutirnir ekki með þér. En núna erum við að spila illa og ég hef áhyggjur af því. Við erum mjög ólíkir sjálfum okkur,“ sagði Bjarni.

„Annað hvort nýtum við þetta til góðs og komum miklu sterkari til baka. Eða við brotnum sem lið og gefumst upp.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira