Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Grótta 30-27| Öruggt í seinni hjá Stjörnunni

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/bára
Stjarnan tók stórt skref í áttina að úrslitakeppninni í Olís-deild karla í handbolta í kvöld með sigri á Gróttu í TM-höllinni. Stjarnan vann leikinn 30-27 en með sigrinum þurfti á sigri að halda til að halda sér í úrslitakeppnissæti. Grótta vann fyrri hálfleikinn en Stjarnan sýndi karakter og spilaði mjög vel í seinni hálfleik. 

 

Sóknin var betri en vörnin báðu megin í upphafi leiks en staðan var 7-6 fyrir Stjörnuna eftir tæpar 10 mínútur þar sem einungis 5 sóknir liðanna voru búnar að misheppnast. Þessi slæmi varnarleikur sást kannski mest á að það var engin lögleg stöðvun frá 4. til 15. mínútu. Bæði lið fengu að skjóta eins og þau vildu úr þeim stöðum sem þau vildu. Aron Dagur Pálsson byrjaði mjög vel fyrir heimamenn en hann skoraði 3 og lagði upp 1 af þessum fyrstu 7 mörkum. 

 

Grótta tók síðan völdin í leiknum. Grótta tók 8-2 áhlaup og komst yfir 14-9. Varnarleikur Stjörnunnar var alveg afleitur allan seinni hálfleikinn en Hreiðar Levý Guðmundsson markmaður Gróttu átti fínan fyrri hálfleik og átti stóran hlut í þessu áhlaupi. Í stöðunni 11-8 fyrir Gróttu tók Rúnar Sigtryggson þjálfari Stjörnunnar leikhlé, það hafði lítil áhrif en það var eiginlega eins og leikmenn Stjörnunnar höfðu ekki áhuga á að spila vörn í fyrri hálfleik. 

 

Þrátt fyrir að komast nokkrum sinnum yfir með 5 mörkum þá fór Grótta inn í klefa með einungis tveggja marka forskot, 16-14. Stjarnan endaði hálfleikinn með 4-1 áhlaupi eftir að Ásmundur Atlason leikmaður Gróttu fór meiddur útaf. Ásmundur var búinn að spila mjög vel og það var klárlega mikill missir fyrir Gróttu að hafa hann ekki með út leikinn. 

 

Stjarnan fóru að spila með 7 í sókn í mjög sérstakri uppstillingu þegar þeir byrjuðu að minnka muninn í fyrri hálfleik . Þeir byrjuðu sóknina með einn leikmann á miðjum vellinum og fóru síðan í allskonar innleysingar. Þetta leikskipulag virkaði vel fyrir þá en þrátt fyrir að tapa oft boltanum með engan í marki skoruðu Grótta aldrei í tómt mark. Stjarnan skoraði hinsvegar slatta af mörkum úr sóknum þar sem þeir voru með auka mann og sást vel að þetta hjálpaði á móti 5-1 vörn Gróttu. 

 

Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu fljótlega að jafna í stöðunni 18-18. Einar Jónsson tók ekki leikhlé fyrr en í stöðunni 21-19 fyrir Stjörnunni en þá var Stjarnan búin að skora 6 af seinustu 7 mörkum leiksins. Eftir að Einar tók leikhlé átti Grótta ágætis kafla og skoraði tvö mörk í röð. Í stöðunni 21-21 náði Andri Hjartarson Grétarson leikmaður Stjörnunnar að stöðva áhlaup Gróttu með ótrúlegum hætti. Stjarnan misstu boltann með engan í marki, Andri náði einhvern að koma tilbaka áður en skotið frá Hreiðari Levý rataði í markið og greip boltann. Grótta hefði þarna getað komist yfir en þeir komust aldrei aftur í leiknum yfir. 

 

Rúnar þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé í stöðunni 21-21 og eftir það tók Stjarnan 4-1 áhlaup. Eftir þetta áhlaup Stjörnunnar var sigurinn aldrei í hættu. Forystan fór nokkrum sinnum upp í 5 mörk og þrátt fyrir að Grótta hafi náð að minnka muninn niður í 3 mörk á lokamínútunni átti Stjarnan sigurinn alltaf skilið í kvöld. 

 

 

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan er ágætis lið í efstu deild en Grótta ekki. Þrátt fyrir að hafa spilað nokkuð illa varnarlega allan leikinn þá náði Stjarnan í sigur útaf miklum einstaklingsgæðum sóknarlega sem Grótta er einfaldlega ekki með. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Garðar Benedikt Sigurjónsson línumaður Gróttu var frábær í leiknum. Liðsfélagar hans voru auðvitað frábærir í að finna hann en Garðar gat fengið boltann hvar sem er í þessum leik og búið til mark. 10 mörk úr 10 skotum er náttúrulega bara geggjað. Sá leikmaður sem var duglegastur að finna Garðar í leiknum var sennilega Aron Dagur Pálsson sem var sömuleiðis frábær. Aron skoraði 7 mörk úr 9 skotum, var með 8 stoðsendingar í leiknum og tapaði bara 2 boltum. 

 

Ásmundur Atlason var mjög góður fyrir Gróttu áður en hann meiddist og það er leiðinlegt að hann hafi ekki getað klárað leikinn. Magnús Öder Einarsson var sá leikmaður Gróttu sem þorði oftast að taka af skarið í sóknarleiknum í kvöld. Magnús skoraði 8 mörk úr 14 skotum sem er bara mjög fínt miðað við að hann þurfti oftast að búa til eitthvað úr engu.

 

Hvað gekk illa? 

Þrátt fyrir að Stjarnan hafi unnið þennan leik er ekki hægt að hrósa vörn né markvörslu hjá þeim í leiknum. Botnlið Gróttu fékk aftur og aftur galopin skot í leiknum. 

 

Bara allt sem Grótta gerði í sóknarleiknum var ekki upp á marga fiska. 

 

Hvað gerist næst? 

Garðbæingarnir skella sér norður til Akureyrar á sunnudaginn þar sem þeirra baráttu um að komast í úrslitakeppnina heldur áfram. 

 

Grótta fær ÍR í heimsókn á laugardaginn en ef Grótta nær ekki sigri í þeim leik eru þeir fallnir niður í Grillið.

 

Rúnar: Þeir hreyfðu sig aðeins

„Við vorum allt of staðir varnarlega. Við vorum bara eins og tindátar í vörninni. Þeir komu grimmir á okkur og þeir skutu. Ég hedl að við höfum verið með tvo varða bolta í fyrri hálfleik. Við komum varla við þá. Það var mikill kraftur í þeim og þeir litu mjög vel út. Við litum mjög illa út. Þetta var ekki líkt því sem við höfum verið að gera og þetta er mjög svekkjandi, hvernig við komum inn í fyrri hálfleikinn. Bæði hvernig við spilum hann og hvernig við bregðumst síðan við þessu mótlæti,” sagði Rúnar Sigtryggson þjálfari Stjörnunnar eftir leik kvöldsins. 

 

Rúnar vildi frekar vörninni en markvörslunni um þennan lélega fyrri hálfleik þar sem Grótta skoraði 16 mörk þrátt fyrir að leikurinn hafi ekki verið að spilast hratt.

 

„Það er auðvitað blanda af báðu. Ég myndi fyrst fremst kenna vörninni um vegna þess að þeir gátu valið hverjir skutu á markið. Þeir komu af miklum krafti á vörnina og við mættum þeim ekki. Þeir voru komnir alveg niður á sjö metrana. Ásmundur og Magnús Öder komu með kraftmikil skot og við réðum bara ekkert við þá.” 

 

Rúnar var aðeins sáttari með varnarleikinn í seinni hálfleik en samt ekki mikið. 

 

„Það er hluti af prógramminu. Við fórum að hreyfa okkur aðeins í vörninni. Við náðum aðeins að pressa þá annað slagið og síðan tók Siggi nokkra bolta í markinu sem skiptu máli. Þetta var mjög erfitt eins og maður vissi. Þegar Grótta nær að spila sinn leik. Þetta er bara klókt hjá þeim og þegar þær eru hættulegir úr meira en einni stöðu þá eru þeir mjög erfiðir. Sérstaklega fyrir okkur við erum búnir að tapa fyrir þeim einu sinni í vetur.” 

 

„Tikk betri. Þeir hreyfðu sig aðeins. Það er ekki nóg en aðeins.” 

 

Einar þjálfari Gróttu var nýbúinn að taka eldræðu um dómgæsluna í leiknum þegar Rúnar fór í viðtal. Rúnar var ekki alveg jafn reiður en Einar en hann var samt sem áður sammála honum að mörgu leyti. 

 

„Við vorum ekki góðir en dómgæslan var ekki heldur góð. Ég get alveg tekið undir það með Einari. Enda fengum við okkar refsingar og það var engin lína í þessu. Þetta var bara eins og það hafi verið að draga upp úr hattinum hvað yrði dæmt næst.” 

 

Stjarnan er eftir þessa umferð ennþá í sjöunda sæti. Sjöunda sætið tekur þátt í úrslitakeppninni og Rúnar hafði fulla trú á að liðið geti klárað þá leiki sem það á eftir til að komast í úrslitakeppnina.

 

„Við erum stigalega inni. Þá er þetta undir okkur komið þessir síðustu þrír leikir. Við förum í þessa leiki til að vinna þá og til að halda okkur inni. Við verðum að treysta á sjálfa okkur ekki úrslit hjá öðrum eins og sýndi sig í kvöld og í dag að það getur allt gerst. Það geta allir unnið alla ennþá og við vorum nálægt því að missa þessi tvö stig hérna á heimavelli í kvöld líka. Ég myndi kannski segja að þetta hafi verið smá heppni að við séum með þessi tvö stig í kvöld.” 

 

Einar:„Ég hélt að Spaugstofan væri hætt” 

„Varnarlega erum við bara ekki nógu öflugir í seinni hálfleik. Við réðum engan við Garðar inni á línunni til dæmis. Hann átti frábæran leik og við bara fundum ekki lausnir á því. Ég veit ekki hvað hann skoraði mikið en það var allavega alltof mikið. Fyrst og fremst var það lélegur varnarleikur sem fór illa með okkur. Auðvitað eru einhver hökkt sóknarlega líka en það er eitthvað sem maður er orðin tiltölulega vanur,” sagði Einar Jónsson þjálfari Gróttu eftir leik kvöldsins. 

 

Grótta vann fyrri hálfleikinn með tveimur mörkum. Einar var mjög ánægður með frammistöðuna í fyrri hálfleik, sérstaklega sóknarlega. 

 

„Við vorum bara flottir. Sóknarleikurinn var náttúrulega sérstaklega góður. Það var gott tempó á boltanum og við vorum að slútta vel á markið. Við náðum að skapa okkur fullt af færum.” 

 

Ásmundur Atlason miðjumaður Gróttu var búinn að eiga frábæran leik áður en hann meiddist í lok fyrri hálfleiks. Ásmundur gat ekkert spilað meira í leiknum og sást vel á sóknarleik Gróttu að þeir söknuðu hans. 

 

„Við missum Ása út. Það reyndist okkur svolítið erfitt, hann var búinn að vera helvíti góður áður en hann meiðist.” 

 

Í sömu sókn og Stjarnan jafnaði í fyrsta skipti í seinni hálfleik fékk bekkurinn hjá Gróttu á sig tveggja mínútna brottvísun fyrir kjaft. Einar vildi ekki kenna þessari brottvísun um að missa Stjörnuna frá sér samt. 

 

„Svo jöfnum við aftur í 21-21. Það er alltaf dýrt að fá tvær mínútur fyrir kjaft og bara tvær mínútur yfir höfuð. Þeir voru samt að leysa stöðuna einum fleiri ágætlega þannig að ég veit ekki hvort þetta hafi snúið leiknum eitthvað.” 

 

3 leikir eftir og 5 stig upp í öruggt sæti, hefur þú einhverja trú á þið haldið ykkur í Olís deildinni?

„Það þarft margt að breytast hjá okkur. Það þarf að breytast líka varðandi það sem er verið að bjóða upp á hérna í nokkrum leikjum að minnsta kosti hjá okkur í vetur. Að þetta sé nú boðlegt hérna. Ég veit að við erum nú ekki besta liðið á landinu en standardinn á dómgæslunni er náttúrulega fyrir neðan allar hellur. Það er ekki hægt að bjóða upp á þetta sko.” 

 

Einar vildi ekki benda á nein sérstök atriði í leiknum þar sem honum fannst dómgæslan slæm en hann var samt sem áður gríðarlega óánægður með dómgæsluna. Hann segir að þetta hafi ekki endilega kostað Gróttu sigurinn en hann ítrekaði að þetta væri ekki boðlegt. 

 

„Horfðu bara á leikinn. Ég sem hélt að spaugstofan væri hætt sko en maður veltir því bara fyrir sér á köflum hvort þetta sé falin myndavél. Þetta er ekki boðlegt og ég vill ekki segja að þetta halli eitthvað endilega á okkur. Auðvitað finnst mér það og Rúnar getur örugglega sagt það sama. Við vorum báðir orðnir kolbrjálaðir og auðvitað á maður að reyna að sitja á sér en þetta er ekki hægt sko. Ég sagði það fyrir leikinn, gæðin á þessu eru bara ekki í Olís deild. Menn geta alveg sagt að gæðin á okkur séu ekki heldur í Olís deild og menn mega alveg fabúlera með það en þetta er bara langt frá því að vera í lagi sko.” 

 

Einar var alls ekki ánægður með þá dómgæslu sem Grótta hefur fengið á þessu tímabili. Honum finnst ekki nægilega margir góðir dómarar innan sambandsins til að halda uppi þessari deild. 

 

„Það er fullt af góðum dómurum í deildinni. Við höfum verið svona frekar óheppnir með að fá allavega í nokkrum leikjum þá sem ráða ekki við þetta. Það eru 4 leikir á dagskrá í dag og það eru ekki nógu margir dómarar til að bera þetta. Þetta gengur bara ekki upp svona, þetta er bara ekki hægt. Því miður.” 

 

„Hvað ætli við séum búnir að fá tvö bestu dómarapör landsins oft í vetur? Hvað erum við búnir að fá VAR leiki oft í vetur? Þar sem er hægt að taka út eitt og eitt atriði sem geta skipt sköpum. Við erum neðstir og þá fáum við aldrei neitt svona. Það er svo margt í þessu sem er bara ekki boðlegt. Ég er ekkert að segja að dómararnir hafi ollið því að við töpum þessum leik, alls ekki. Þetta er bara skrípaleikur að mínu mati. Þetta er bara djók.” 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira