Viðskipti innlent

Öryggis­búnaðurinn verður partur af vélum Icelandair í fram­tíðinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ein af Boeing 737 MAX vélum Icelandair en vélarnar hafa nú verið kyrrsettar.
Ein af Boeing 737 MAX vélum Icelandair en vélarnar hafa nú verið kyrrsettar. boeing
Icelandair keypti ekki tiltekinn öryggisbúnað í Boeing 737 MAX vélar sínar sem nú hafa verið kyrrsettar. Virkni búnaðarins snýst um að sýna á skjá vélarinnar stöðu mælinga á afstöðu flugvélar á lofti.

Greint var frá því í Stundinni í dag að Icelandair hefði ekki keypt búnaðinn og hafði það eftir heimildum en einnig var greint frá málinu í Morgunblaðinu og staðfesti upplýsingafulltrúi félagsins við blaðið að búnaðurinn hefði ekki verið keyptur.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, staðfestir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að félagið hafi ekki keypt búnaðinn. Búnaðurinn verði hins vegar partur af Boeing 737 MAX vélum Icelandair í framtíðinni.

Hann segir ástæðuna vera þá að sérfræðingar fyrirtækisins töldu að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar við kaup á vélunum hefði svona mæling ekki haft áhrif á öryggi. Auk þess valdi Icelandair annan öryggisbúnað sem veiti mikið af þeim upplýsingum sem hinn búnaðurinn veitir.

Því hefur verið haldið fram að búnaðurinn sem Icelandair keypti ekki hefði mögulega getað minnkað eitthvað líkurnar á flugslysunum í Eþíópíu og Indónesíu. Tæplega 350 fórust í flugslysunum tveimur sem urðu annars vegar í október síðastliðnum og hins vegar fyrr í þessum mánuði.

Jens segir að þessi fullyrðing um búnaðinn sé ótímabær og ekki sennileg að mati Icelandair. Hann bendir jafnframt á að orsakir slyssins í Eþíópíu hafi ekki enn verið staðfestar og því séu allar fullyrðingar í tengslum við það ótímabærar.

„Við teljum hins vegar að m.v. fyrirliggjandi upplýsingar hefði þessi búnaður ekki haft teljandi áhrif á getu áhafnar til að bregðast við þeim aðstæðum sem komu upp í Indónesíu. Við höfum þrátt fyrir það skoðað þetta nánar og sem partur af uppfærðum öryggisferlum okkar verður þessi búnaður partur af Boeing 737 MAX vélunum í framtíðinni.

Þá langar mig til þess að ítreka að öryggi áhafna okkar og farþega hefur alltaf verið og verður alltaf í fyrsta sæti í starfsemi Icelandair. Varðandi Boeing 737 MAX vélarnar, þá hefur viðhald þeirra, þjálfun flugmanna og áhafna okkar verið unnið samkvæmt ströngustu öryggisferlum og eins og almennt í flugrekstri er sífellt verið að vinna að auknu öryggi,“ segir í svari Jens.

Fréttin hefur verið uppfærð með vísun í frétt Morgunblaðsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×