Viðskipti innlent

Hætta við flug til Halifax og Cleveland

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Icelandair hafði í hyggju að nýta þrjár Boeing 737 MAX 8-þotur sínar í áætlunarflugi vestur um haf.
Icelandair hafði í hyggju að nýta þrjár Boeing 737 MAX 8-þotur sínar í áætlunarflugi vestur um haf. Icelandair
Forsvarsmenn Icelandair hafa ákveðið að hætta við fyrirhugað áætlunarflug til borganna Cleveland og Halifax í sumar. Ástæðuna má rekja til kyrrsetningar á Boeing 737 MAX-þotum.

Icelandair greindi stjórnendum Halifax Stanfield og Cleveland Hopkins alþjóðaflugvallanna frá ákvörðun sinni á mánudag. Flugfélagið hafði í hyggju að nýta þrjár 737 MAX-8 þotur sínar í áætlunarflugi til beggja flugvallanna en þau áform hafa farið út um þúfur eftir slysið í Eþíópíu þann 10. mars síðastliðinn.

Haft er eftir forstöðumanni Cleveland Hopkins-flugvallarins í erlendum miðlum að ákvörðun Icelandair sé honum mikil vonbrigði. Hann hafi þó ekki miklar áhyggjur, áætlunarflug Icelandair og WOW air til Cleveland á síðustu árum sýni þann mikla áhuga sem hann telur vera á flugi frá Evrópu til Cleveland. WOW greindi frá því um miðjan október síðastliðinn að flugfélagið hefði jafnframt í hyggju að hætta við fyrirhugað áætlunarflug sitt til borgarinnar næsta sumar.

Sjá einnig: Icelandair endurskoðar pöntun ef kyrrsetning dregst á langinn

Fyrrnefndur forstöðumaður gat ekki staðfest í samtali við Cleveland 19 News hvort ákvörðun Icelandair væri varanleg eða aðeins tímabundin í ljósi yfirstandandi kyrrsetningar. Vonir hafa staðið til að Boeing muni kynna langþráða hugbúnaruppfærslu á fundi í höfuðstöðvum sínum í Renton síðar í dag. Þyki hún traustvekjandi vonast forsvarsmenn flugvélaframleiðandans til þess að hægt verði að vinda ofan af víðtæku kyrrsetningunum.

Sem fyrr segir hefur Icelandair einnig í hyggju að hætta við áætlunarflug sitt til kanadísku borgarinnar Halifax í sumar. Það átti að hefjast í maí. Talsmaður Halifax Stanfield-flugvallarins segist eiga í samskiptum við Icelandair, rétt eins og önnur flugfélög sem bregðast hafi þurft við kyrrsetningunni á Boeing-þotunum, til að átta sig betur á neyðaráætlunum þeirra vegna stöðunnar sem upp sé komin.


Tengdar fréttir

Icelandair endurskoðar pöntun ef kyrrsetning dregst á langinn

Icelandair á von á sex nýjum Boeing 737 MAX 8 vélum á þessu ári. Forráðamenn félagsins segjast vera að skoða til hvaða ráða verði gripið dragist kyrrsetning vélanna á langinn. Raskanir á flugi má rekja til kyrrsetningar þriggja véla félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×