Viðskipti innlent

Von á tilkynningu frá Icelandair vegna Boeing 737 MAX-vélanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Boeing 737 Max vél Icelandair.
Boeing 737 Max vél Icelandair. Vísir/Vilhelm
Uppfært kl. 14:45: 

Tilkynningu Icelandair má nálgast hér Þar segir meðal annars að umræddar vélar verði kyrrsettar. 

Upprunaleg frétt hér að neðan.



Von er á tilkynningu í dag frá Icelandair vegna mögulegrar kyrrsetningar á flugvélum félagsins af gerðinni Boeing 737 MAX. Bresk flugmálayfirvöld bönnuðu vélarnar í sinni lofthelgi í dag og hefur norska flugfélagið Norwegian Air einnig kyrrsett sínar vélar.

Jens Þórðarson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair vildi ekki tjá sig um það í samtali við Vísi hvort Icelandair hygðist fara að fordæmi Norwegian Air og kyrrsetja vélarnar. Hann vísaði í tilkynningu um málið sem félagið sendir frá sér á næsta klukkutímanum.

Þrjár flugvélar af gerðinni Boeing 737 MAX 8 eru í notkun hjá Icelandair en alls hafa níu slíkar vélar verið pantaðar. Þá pantaði félagið sjö vélar af gerðinni Boeing 737 MAX 9. Komið hefur fram að Icelandair er með tilbúna aðgerðaáætlun ef til kyrrsetningar á vélunum kemur.

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur fallið um 8,42% það sem af er degi. Þá hefur gengi hlutabréfa í Boeing fallið um 4% frá opnun markaða vestanhafs.

Ákvörðun flugmálayfirvalda í Bretlandi og Norwegian Air kemur í kjölfar flugslyssins í Eþíópíu þar sem vél Ethiopian Airlines, sem var af gerðinni Boeing 737 MAX 8, hrapaði skömmu eftir flugtak. Alls fórust 157 manns í slysinu. Þetta var annað mannskæða flugslysið á innan við fimm mánuðum þar sem umrædd flugvélagerð kemur við sögu, en 189 manns fórust þegar vél Lion Air hrapaði í Jövuhafi í október, einnig skömmu eftir flugtak.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×